Spurt og svarað um Orlof

Er heimilt að kalla starfsmann úr orlofi til þess að vinna? Hvernig er það þá greitt? 

Svar: Ef starfsmaður fellst á það að koma í vinnu þegar hann er í orlofi þá á að fresta orlofi sem því nemur ella greiða yfirvinnukaup fyrir unnar stundir. Starfsmaður ætti að ræða það við sinn yfirmann áður en hann fer að vinna hvort heldur verði því kjarasamningsákvæðið sem fjallar um þetta (4.7.2 í flestum samningum) gefur sem sagt færi á tveimur möguleikum. 

Ég verð 30 ára 1. október 2004. Á ég rétt á lengingu sumarorlofs þrátt fyrir að hafa ekki orðið 30 ára þegar ég fer í sumarorlof ? 

Svar: Starfsmaður sem nær 30 ára aldri á því almanaksári sem tímabil sumarorlofs tilheyrir, fær að auki orlof sem svarar til 24 vinnuskyldustunda í dagvinnu. Þú átt því rétt á lengingu þar sem þú verður 30 ára á almanaksárinu. 


Ég er ríkisstarfsmaður og veiktist í sumarorlofinu mínu. Á ég rétt á því að fá uppbótarorlof á sumarorlofið mitt? 


Ef starfsmaður veikist í orlofi telst sá tími, sem veikindum nemur ekki til orlofs, enda sanni starfsmaður með læknisvottorði, að hann hafi ekki getað notið orlofs. Starfsmaður þarf að tilkynna yfirmanni sínum strax með símtali eða símskeyti um veikindi eða slys í orlofi. Nauðsynlegt er að tilkynna veikindin strax á fyrsta degi annars kann réttur að falla niður. 

Getur forstöðumaður sett takmörk fyrir því á hvaða tíma orlofstímabilsins orlofstaka sé heimil vegna anna í starfsemi stofnunarinnar.? 

Meginreglan er sú að yfirmaður ákveður í samráði við starfsmann, hvenær orlof skuli veitt. Skylt er að verða við óskum starfsmanna um hvenær orlof er tekið og skal það veitt á sumarorlofstíma verði því við komið vegna starfa stofnunarinnar. Yfirmaður á að kanna hverjar óskir starfsmanna eru og á hann að tilkynna í síðasta lagi mánuð fyrir byrjun orlofs, hvenær orlof starfsmanna skuli hefjast. M.ö.o þá er forstöðumanni stofnunar skylt að hafa samráð við starfsmann um orlofstöku en í samráði felst hins vegar ekki áskilnaður um samþykki starfsmanns. Því hefur forstöðumaður lokaorð um það hvenær starfsmaður tekur orlof sitt, en þó á þeirri forsendu einni að starfsemi stofnunarinnar krefjist þess og er eðlilegt að fyrir því séu færð rök. Að þessu skilyrði fullnægðu ber starfsmanni að hlíta því. 

Mér var sagt upp störfum með þriggja mánaða uppsagnarfresti. Á sumarorlof mitt að vera hluti af þessum þremur mánuðum? 

Vinnuveitandi getur ekki látið starfsmann taka sumarorlof sitt á uppsagnarfrestinum nema starfsmaður sé því samþykkur. Verður það því að vera samkomulagsatriði við starfsmanninn að skipa uppsagnarfresti með þeim hætti að hluti hans sé orlof. 

Hvernig á að telja orlof vaktavinnufólks? 

Þegar starfsmaður í vaktavinnu fer í orlof skal miða við að vaktskrá haldist óbreytt og telja út þær vinnuskyldustundir sem viðkomandi hefði ella unnið. Ef greidd er yfirvinna á helgidögum skal orlof lengjast um 8 klst. ef sérstakur frídagur er á orlofstímanum. 

Hvernig á að fara með ótekið orlof við starfslok? 

Við starfslok skal gera upp áunnið orlof. Ráðningarsambandi starfsmanns og vinnuveitanda lýkur á þeim degi sem uppsögn tekur gildi og því ekki heimilt að bæta orlofinu við uppsagnarfrestinn. 

Spurt er um rétt starfsmanns til að fara í launalaust leyfi. 

Í kjarasamningum er ákvæði sem kveður á um að starfsmaður skuli eiga rétt á launalausu leyfi ef honum býðst tækifæri og/eða styrkur til að vinna að tilteknu verkefni m.a. tengdu starfi hans. Slíkt leyfi skal tekið í samráði við yfirmann stofnunar. Þá á starfsmaður rétt á launalausu leyfi hafi hann verið kosinn á Alþingi, fengið starf hjá samnorrænni stofnun, skrifstofu ráðherranefndar Norðurlanda eða stjórnarnefnd Norðurlandaráðs. Þá eiga foreldrar rétt á foreldrarorlofi samkvæmt fæðingar- og foreldraorlofslögum. Það er áríðandi að ganga skriflega frá launalausu leyfi svo ljóst sé hve lengi leyfið á að standa.