Samþykkt stjórnar sambandsins um stöðugleikasáttmálann o.fl.

Meira um stöðuleika sáttmálann má finna hér.

 

„Stjórn Sambands íslenskra sveitarfélaga fagnar því að tekist hefur að koma á stöðugleikasáttmála milli ríkisstjórnar Íslands, sambandsins og aðila vinnumarkaðarins, sem undirritaður var 25. júní sl. 

Ljóst er að efnahagslegur samdráttur hér á landi mun vara lengur og verða meiri en talið var í fyrstu. Nauðsynlegt er því að draga enn frekar úr útgjöldum sveitarfélaga en þegar hefur verið ákveðið, eins og ítrekað hefur komið fram af hálfu forsvarsmanna sveitarfélaga að undanförnu, m.a. við undirbúning að gerð stöðugleikasáttmálans. Gera verður ráð fyrir að lækkun þjónustustigs af þessum sökum muni hafa mikil áhrif á alla landsmenn næstu árin. 

Hjá flestum sveitarfélögum hafa forsendur fjárhagsáætlana fyrir árið 2009 ekki staðist. Atvinnuleysi hefur verið meira en reiknað var með, neikvæð áhrif gengis íslensku krónunnar eru meiri, skatttekjur og tekjur frá Jöfnunarsjóði sveitarfélaga eru lægri og rekstrarútgjöld eru hærri. Þetta kallar á endurskoðun fjárhagsáætlana þessa árs hjá flestum sveitarfélögum og meiri niðurskurð næstu ár en gert var ráð fyrir í þriggja ára áætlunum þeirra. 

Stjórn Sambands íslenskra sveitarfélaga telur mikilvægt að sveitarfélög séu sem mest samstíga í aðgerðum sínum við að skera niður útgjöld. Verja þarf lögbundna grunnþjónustu, þó þjónustustigið verði lækkað í sumum tilfellum, og draga þarf úr annarri þjónustu. 

Sveitarfélögin hafa á undanförnum mánuðum unnið að markvissum aðhaldsaðgerðum. Ljóst er að það dugar ekki til, þar sem útgjöld sveitarfélaga aukast á sama tíma og tekjur þeirra lækka, og fyrir liggur að ekki næst að tryggja grunnþjónustu sveitarfélaga og störf nema tilkomi enn frekari möguleikar á útgjaldalækkun og hækkun tekna með einum eða öðrum hætti. 

Vegna endurskoðunar á fjárhagsáætlun 2009 og fjárhagsáætlunargerðar fyrir árin 2010–2013 leggur stjórn sambandsins áherslu á að ríki og sveitarfélög vinni fljótt og vel grunn að því hvernig staðið verði að aðhaldsaðgerðum og þróun afkomu sveitarfélaga í samræmi við nýgerðan stöðugleikasáttmála.“ 

Samþykkt á stjórnarfundi 26. júní 2009.