FOSvest FOSvest | miðvikudagurinn 10. janúar 2018

Bregðumst við álagi og áreiti með styttri vinnutíma

Elín Björg Jónsdóttir, formaður BSRB.
Elín Björg Jónsdóttir, formaður BSRB.
Birt á vef BSRB 05.01.2018 

Skoða verður af fullri alvöru hvernig hægt er að bregðast við í samfélagi þar sem álag og áreiti eykst sífellt. Sem betur fer er skilningur á mikilvægi þess að stytta vinnutímann að aukast.

Bæði Reykjavíkurborg og ríkið eru nú með tilraunaverkefni í gangi til að skoða kosti og galla styttingar vinnuvikunnar. BSRB hefur talað fyrir því um áratuga skeið og hefur krafan færst sífellt ofar á kröfulistann. Bandalagið leggur áherslu á að vinnuvikan verði stytt úr 40 stundum í 36.

Nú er samfélagið farið að taka við sér svo um munar. Reykjavíkurborg hefur leitt vagninn með tilraunaverkefni sem unnið hefur verið með BSRB frá árinu 2015. Annar áfangi verkefnisins hefst bráðlega en þá geta allir vinnustaðir borgarinnar sótt um að taka þátt. Sambærilegt tilraunaverkefni ríkisins og BSRB er einnig í gangi.

Markmiðið með tilraunaverkefnunum er að rannsaka langtímaáhrifin af því að stytta vinnuvikuna án þess að skerða laun. Þær niðurstöður sem komnar eru úr fyrsta áfanga tilraunaverkefnis borgarinnar sýna að styttingin hefur gefið góða raun. Starfsánægja hefur aukist og skammtímaveikindi dregist saman á meðan afköstin hafa haldist óbreytt.

Augljós hagur allra

Önnur sveitarfélög hafa einnig sýnt málinu áhuga, af augljósum ástæðum. Ef vinnustaðir geta með einni aðgerð dregið úr álagi og veikindum án þess að það bitni á afköstum er það augljós hagur allra að skoða málið. Það ættu framsýnir stjórnendur fyrirtækja á almennum vinnumarkaði einnig að gera.

Með styttri vinnuviku má stuðla að fjölskylduvænna samfélagi. Fæst viljum við að börn séu í meira en átta tíma á dag í skólum og leikskólum. Flestir gætu hugsað sér meiri tíma til að hreyfa sig, sinna fjölskyldu og áhugamálum. Með styttri vinnuviku má einnig auka jafnrétti á vinnumarkaði, enda vinna konur frekar hlutastörf en karlar og eru líklegri til að sinna börnum í meira mæli. Við höfum allt að vinna og engu að tapa með því að stytta vinnuvikuna.

Elín Björg Jónsdóttir, formaður BSRB

Greinin birtist fyrst í Fréttablaðinu.

FOSvest FOSvest | miðvikudagurinn 10. janúar 2018

Nám trúnaðarmanna gert hnitmiðaðra

Nám trúnaðarmanna BSRB hefur nú verið stokkað upp.

Nám trúnaðarmanna við Félagsmálaskóla alþýðu hefur verið endurskoðað, námsefnið stokkað upp gert hnitmiðaðra. Námsskrá fyrir vorið hefur nú verið gefin út.

Námskeiðin sem sumir af okkar trúnaðarmönnum gætu kannast við, Trúnaðarmannanámskeið I og Trúnaðarmannanámskeið II, hafa verið sameinuð í eina námskrá, sem kallast einfaldlega Nám trúnaðarmannsins.

Eins og fram kemur á vef Félagsmálaskóla alþýðu er námið í heild sinni 96 kennslustundir og hefur verið stytt umtalsvert því það var áður 142 kennslustundir. Það var gert með því að fara vandlega yfir námsefnið og ábendingar frá trúnaðarmönnum sem setið hafa námskeiðin til að taka út endurtekningar og gera námið allt hnitmiðaðra.

Nýja námsskráin skiptist í sex hluta. Hver hluti er 16 kennslustundir og er kennt á tveimur heilum dögum, í stað þriggja daga áður. Efnið sem farið verður yfir í hverjum hluta er eftirfarandi:

Fyrsti hluti – 30 og 31. janúar 2018

 • Hvert er hlutverk stéttarfélaga, sambanda og heildarsamtaka á vinnumarkaði?
 • Hvernig starfa stéttarfélögin, stjórnir þeirra og hvert er hlutverk félagsmanna?
 • Hvert er hlutverk trúnaðarmanns á vinnustað, hvað á hann að gera og hvað á hann ekki að gera?
 • Hvert er hlutverk trúnaðarmanna samkvæmt lögum og kjarasamningum?
 • Hvar getur trúnaðarmaður aflað sér upplýsinga um túlkanir kjarasamninga og önnur mál sem koma inn á hans borð?
 • Hvernig eiga trúnaðarmenn að taka á móti umkvörtunum og vinna úr þeim?

Annar hluti – 8. og 9. febrúar 2018

 • Lögð er megináhersla á mikilvægi góðra samskipta á vinnustað, hvernig megi stuðla að góðum samskiptum.
 • Skoðuð er mismunandi framkoma, áhrif hennar á okkur og aðra.
 • Nemendur kynnast afleiðingum langvarandi slæmra samskipta, eineltis á vinnustað, hvernig bregðast eigi við og ábyrgð gerenda og atvinnurekenda.
 • Nemendur kynnast starfsemi stéttarfélagsins, réttindum félagsmanna.
 • Nemendur læra á innihald og uppbyggingu kjarasamninga og helstu túlkun á þeim.
 • Nemendur kynnast sjóðum félagsins og réttindum félagsmanna í þeim.

Þriðji hluti – 5. og 6. mars 2018

 • Nemendur læra reiknitölur helstu launaliða.
 • Nemendur kynnast grunnuppbyggingu launaseðla og launaútreikninga svo og staðgreiðslu skatta.
 • Nemendur kynnast tryggingum sem við höfum í gegnum kjarasamninga, almannatryggingakerfið, sér tryggingar.
 • Nemendur kynnast íslenskum vinnurétti, þeim lögum sem styrkja kjarasamninga vinnumarkaðarins.

Fjórði hluti – 26. og 27. mars 2018

 • Megináhersla er lögð á helstu hagfræðihugtök í daglegu lífi og í kjarasamningagerð, s.s. kaupmátt launa, mun á hlutfallslegri hækkun eða krónutöluhækkun.
 • Nemendur kynnast hvað þarf að hafa í huga við gerð samninga.
 • Megináhersla er lögð á lög um vinnurétt og hvernig þau styðja kjarasamninga og hvernig íslenskur vinnumarkaður er upp byggður.
 • Lögð er áhersla á rétt launamanna t.d. til fæðingarorlofs, atvinnuleysistrygginga og ýmis þau réttindi í lögum og reglugerðum sem íslenskur vinnumarkaður byggir á.

Fimmti hluti – 24. og 25. apríl 2018

 • Kynninga á Virk-starfsendurhæfingar—sjóðnum og starfi ráðgjafa hans.
 • Kynning á Vinnueftirlitinu, skyldum atvinnurekenda í vinnuvernd og trúnaðarmanna.
 • Farið er í hvernig sjálfstraust einstaklinga hefur áhrif á samskipti.
 • Nemendur kynnast áhrifum skorts á sjálfstraust og ýmsar birtingamyndir þess.
 • Nemendur kynnast leiðum til að efla sjálfstraustið og hvaða aðstæður geta haft áhrif á minnkandi sjálfstraust.

Sjötti hluti – 7. og 8. maí 2018

 • Nemendur kynnast helstu hugtökum í samningtækni.
 • Lögð er áhersla á eðli og markmið samninga, grunnatriði samningagerðar, hvernig hún er notuð í daglegu lífi við úrlausn mála sem koma inn á borð trúnaðarmanna.
 • Megináhersla er á undirbúning framsögu og umræður á vinnustaða- og félagsfundum, fundarsköp og frágang fundagerða.
 • Einnig er fjallað um einkenni og tilgang ýmissa ræðuforma.
 • Lögð er áhersla á að skilgreina helstu einkenni rökræðu, mikilvægi þess að hlusta á skoðanir annarra.

Áhugasamir nemendur geta skráð sig á námskeiðin í gegnum vef Félagsmálaskóla alþýðu. Stofna þarf aðgang með íslykli eða lykilorði til að fá aðgang að námsgögnum og komast í samband við leiðbeinendur. Sækja má skjal með upplýsingum um tímasetningu námskeiða og námsefni hér.

FOSvest FOSvest | fimmtudagurinn 21. desember 2017

Gleðileg jól

FOSvest FOSvest | miðvikudagurinn 6. desember 2017

Skýrri afstöðu gegn einkavæðingu fagnað

Grein tekin af vef BSRB

Mikill þrýstingur hefur verið á aukna einkavæðingu í heilbrigðiskerfinu þó rannsóknir sýni að almenn…
Mikill þrýstingur hefur verið á aukna einkavæðingu í heilbrigðiskerfinu þó rannsóknir sýni að almenningur vill halda þessari þjónustu hjá hinu opinbera.

BSRB fagnar því að Svandís Svavarsdóttir, nýr heilbrigðisráðherra, skuli strax á fyrstu dögum sínum í embætti tala skýrt út um að ekki standi til að einkavæða frekar í heilbrigðiskerfinu. Þá er afar jákvætt að ráðherra boði úttekt á umfangi og stöðu einkavæðingar í heilbrigðisþjónustunni.

Undanfarin ár hefur verið mikill þrýstingur frá hagsmunaaðilum að auka einkavæðingu í heilbrigðiskerfinu. Þessi þrýstingur hefur aukist þrátt fyrir að rannsóknir sýni að þorri almennings er andvígur einkavæðingu og vill halda heilbrigðisþjónustunni hjá hinu opinbera.

Þannig vilja rúmlega 94 prósent landsmanna að ríkið veiti heilbrigðisþjónustu í landinu, samkvæmt niðurstöðum alþjóðlegrar rannsóknar sem gerð var á vegum International Social Survey Programme fyrr á þessu ári.

Aðrar rannsóknir staðfesta andstöðu Íslendinga við einkavæðingu í heilbrigðiskerfinu. Þannig sýna niðurstöður nýlegrar rannsóknar Rúnars Vilhjálmssonar, prófessors við Háskóla Íslands, að um 86 prósent landsmanna vilja að sjúkrahús séu fyrst og fremst rekin af hinu opinbera og nærri 79 prósent vilja að heilsugæslustöðvar séu reknar af hinu opinbera.

Þegar tölurnar eru bornar saman við sambærilegar rannsóknir Rúnars frá 2006 og 2015 má sjá að afstaða landsmanna gegn einkavæðingu er að aukast.

Stendur í vegi fyrir einkavæðingu

Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra var skýr í máli í þættinum Víglínunni á Stöð 2 síðastliðinn laugardag. „Það er alveg ljóst að á minni vakt verður ekki farið frekar í einkavæðingarátt, enda er þessi stjórnarsáttmáli, hann snýst fyrst og fremst um það að efla almenna kerfið. Snýst um það að styrkja jafna rétt til öflunar heilbrigðisþjónustu óháð efnahag og óháð búsetu og svo framvegis, þannig að það rímar ágætlega saman,“ sagði Svandís í þættinum.

Þar sagði hún jafnframt: „Eitt af því fyrsta sem að ég mun gera í ráðuneytinu er að fá ítarlega úttekt á stöðu þessara einkavæðingarmála undanfarin ár þannig að við vitum nákvæmlega á hvaða stað við erum í raun og veru stödd.“

Það verður áhugavert að sjá niðurstöður þessarar úttektar og gott að ráðherra mun standa í vegi fyrir frekari einkavæðingu. Fjárlögin sem lögð verða fram fljótlega munu svo vonandi bera þess skýr merki að leggja eigi af stað í þá miklu uppbyggingu sem þörf er fyrir í heilbrigðiskerfinu.

Nánar er fjallað um rannsóknir Rúnars Vilhjálmssonar og baráttuna um heilbrigðiskerfið hér.

FOSvest FOSvest | föstudagurinn 1. desember 2017

Orlofshús á Spáni

Ágæti félagsmaður

Í dag 1. des. n.k. opnum við fyrir leiguna á flotta Spánar orlofshúsinu okkar, Mosfelli sem við höfum verið með aðgang að s.l. ár við góðar undirtektir.
Húsið er á Torrevieja rétt hjá Alicante. Við bjóðum upp á tveggja vikna leigutímabil yfir páska og sumartíma, en utan þeirra er hægt að panta sér eina viku í senn.
Félagmenn eru beðnir að skoða það vel að skiptidagar eru þriðjudagar og fyrsta tímabil er um páskana eða frá 27. mars - 10. apríl.
Síðan byrjar sumartímabilin 22. maí og eru skiptidagar eftir það 5. júní - 19. júní - 3. júlí - 17. júlí - 31. júlí - 14. ágúst - 28. ágúst 11. sept. - 25. sept.. Eftir 9. okt er hægt að panta sér vikudvöl ef félagsmenn kæra sig um og eins á tímabilinu frá 10. apríl til 22. maí og frá 2. janúar 2018 til 27. mars.

Flest flugfélög og ferðaskrifstofur eru með flug til Alicante á þriðjudögum og flest starfsmannafélög eru með skiptidag á þessum vikudegi.

Til að fá nánari upplýsingar u! m húsið og umhverfið þess, fari á inn á slóðina; www.tilspanar.is og þar má finna er allt sem vita þarf um íbúðina.

Vikan kostar 38 þúsund og tímabilið því 76 þúsund.

Með bestu kveðjum,
Guðbjörn Arngrímsson
formaður orlofsnefndar Samflots

FOSvest FOSvest | miðvikudagurinn 29. nóvember 2017

Risavaxið verkefni að viðhalda stöðugleika

Tekið af vef BSRB

 
 

Forgangsraða þarf í þágu uppbyggingar í velferðar- og menntamálum segir meðal annars í ályktun forma…

Forgangsraða þarf í þágu uppbyggingar í velferðar- og menntamálum segir meðal annars í ályktun formannaráðs.

Nýrrar ríkisstjórnar bíður risavaxið verkefni við að viðhalda stöðugleika á vinnumarkaði. Formannaráð BSRB, sem kom saman fyrir helgi, sendi frá sér ályktun þar sem flokkarnir sem nú vinna að myndun ríkisstjórnar eru hvattir til að beita sér fyrir auknum félagslegum stöðugleika í samfélaginu.

Það gengur ekki að einblína á efnahagslegan stöðugleika enda verður honum ekki viðhaldið ríki ekki félagslegur stöðugleiki hér á landi.

Ályktun formannaráðsins má lesa hér að neðan. Þá má benda á frekari umfjöllun um félagslegan stöðugleika á vef BSRB.


Ályktun formannaráðs BSRB um félagslegan stöðugleika

Formannaráð BSRB áréttar mikilvægi þess að þeir stjórnmálaflokkar sem mynda munu nýja ríkisstjórn beiti sér fyrir því að auka félagslegan stöðugleika í samfélaginu. Grundvöllurinn að því er réttlátt skattkerfi þar sem greitt er inn eftir efnum og tekið út eftir þörfum.

Allir verða að hafa jafnt aðgengi að almannaþjónustunni, óháð efnahag. Forgangsraða þarf í þágu uppbyggingar í velferðar- og menntamálum. Búa þarf launafólki félagslegt öryggi svo það geti eignast börn, komið þaki yfir höfuðið og mætt afleiðingunum af slysum, veikindum og atvinnumissi. Þá þarf að gera bæði öldruðum og öryrkjum kleift að lifa mannsæmandi lífi.

Nýrrar ríkisstjórnar bíða erfiðar áskoranir við að viðhalda stöðugleika á vinnumarkaði. Þar er mikilvægt að einblína ekki aðeins á efnahagslegan stöðugleika, enda verður hann ekki til án þess að félagslegur stöðugleiki sé tryggður.

Reykjavík, 24. nóvember 2017

FOSvest FOSvest | miðvikudagurinn 29. nóvember 2017

Áreitni og ofbeldi upp á yfirborðið

Tekið af vef BSRB 

Elín Björg Jónsdóttir, formaður BSRB.
Elín Björg Jónsdóttir, formaður BSRB.

Þó það geti verið erfitt að hlusta á og lesa frásagnir af kynferðislegri áreitni og ofbeldi á vinnustöðum er jákvætt að nú séu þessi mál loksins að komast upp á yfirborðið. Þolendur hafa rofið þögnina og munu vonandi halda því áfram.

BSRB og önnur heildarsamtök launafólks sendu á miðvikudag frá sér sameiginlega yfirlýsingu þar sem hvatt er til aðgerða. Við verðum sem samfélag að senda skýr skilaboð. Fórnarlömbin verða að vita að þau fái stuðning og úrlausn sinna mála. Gerendur þurfa að vita að þeirra hegðun verður ekki liðin.

Þar leika stjórnvöld lykilhlutverk. Lög og reglur um skyldur launagreiðenda eru skýr en það þarf að framfylgja þeim. Við köllum eftir því að eftirlit verði haft með því að atvinnurekendur fari eftir nýlegri reglugerð sem skýrir þær kröfur sem gerðar eru til þeirra þegar kemur að kynferðislegri áreitni og ofbeldi á vinnustöðum. Efla þarf Vinnueftirlitið svo það hafi bolmagn til að heimsækja vinnustaði til að tryggja að þar séu til staðar verkferlar sem starfsfólk þekkir og yfirmenn fara eftir.

Stjórnendur þurfa að taka upp samtalið við sitt starfsfólk og gera því ljóst hvar mörkin liggja, hvað má og hvað má ekki. Starfsmenn þurfa að hafa vissu fyrir því að unnið verði úr þeirra umkvörtunum þegar þeir stíga fram og að málum verði ekki sópað undir teppið eða þau hafi neikvæð áhrif á störf þeirra eða starfsframa. Það að stíga fram á að vera jafn eðlilegt og að óska eftir hlífðarfatnaði á vinnustað. Öll vinnuvernd miðar að því að tryggja að allir séu öruggir og líði vel.

Stéttarfélögin hafa unnið ötullega í þessum málaflokki en þar verðum við augljóslega að gera betur. Við höfum veitt konum og körlum sem orðið hafa fyrir áreitni ráðgjöf, veitt fræðslu, gefið út bæklinga og fræðsluefni og notað net trúnaðarmanna til að auka þekkingu. Við verðum að halda þessari vinnu áfram og einsetjum okkur að gera það. Kynferðisleg áreitni og ofbeldi á vinnustöðum er óásættanleg og óþolandi hegðun sem verður ekki liðin.

Elín Björg Jónsdóttir, formaður BSRB

Greinin birtist fyrst í Fréttablaðinu.

FOSvest FOSvest | þriðjudagurinn 14. nóvember 2017

Fræðsludagur félagsliða 22.nóvember

 

FRÆÐSLUDAGUR FÉLAGSLIÐA

Miðvikudaginn 22. nóvember næstkomandi verður hinn árlegi fræðsludagur félagsliða haldinn á Grand Hótel Reykjavík. Dagskráin verður með fjölbreyttu sniði, en viðburðurinn er opinn félagsliðum um allt land óháð stéttarfélagi. Nauðsynlegt er að skrá sig hjá Drífu Snædal (drifa@sgs.is) fyrir 15. nóvember. Félagsliðar um allt land eru hvattir til að nýta sér þetta tækifæri til að fræðast og ekki síst hitta aðra félagsliða og ræða sameiginleg málefni.

Dagskrá

Kl. 10:00 – 11:00              Hópavinna um stöðu félagsliða og framtíðarsýn

Kl. 11:30 – 12:00              Samantekt og umræður

Kl. 12:00 – 13:00              Hádegismatur

Kl. 13:00 – 14:00              Félagsliðar sem burðarstoð í velferðarkerfi framtíðarinnar

Kl. 14:00 – 14:40              Kynning á nýju framhaldsnámi félagsliða

Kl. 14:40 – 15:00              Kaffi

Kl. 15:00 – 15:45              Að njóta sín í starfi og koma í veg fyrir kulnun

Kl. 16:00                            Fundalok

 

 
 
 

 
Eldri færslur
Vefumsjón