NOFS sendir BSRB og íslensku þjóðinni samstöðukveðju

NOFS sendir BSRB og íslensku þjóðinni samstöðukveðju

 NOFS (Nordens Offentliganställdas Fackliga Samorganisation) sem er norrænn samstarfsvettvangur Eurec og EPSU, og BSRB er aðili að, hefur sent BSRB samstöðukveðju vegna þeirra efnahagsþrenginga sem Íslendingar eiga nú við að glíma. Segir í kveðjunni að NOFS hafi verulegar áhyggjur af stöðunni hér á landi í kjölfar fjármálakreppunnar í heiminum.


„Þetta er afleiðing af þeirri hugmyndafræði sem hefur verið ráðandi í stórum hluta heimsins undanfarin ár. BSRB og NOFS hafa í mörg ár gagnrýnt að markaðsöflunum hefur verið gefinn allt of laus taumur án þess að yfirvöld hafi haft nægilegt eftirlit og stjórn á þróuninni. Nú er það almenningur sem fær reikninginn, bæði á Íslandi og annars staðar í heiminum. NOFS lýsir því yfir samstöðu og stuðningi við íslensku þjóðina. Við munum líka hvetja ríkisstjórnir okkar til að aðstoða Ísland þannig að þjóðin þurfi ekki að líða fyrir óheft frelsi markaðsaflanna."

Þá segir í kveðjunni frá NOFS að ef BSRB þurfi á stuðningi að halda muni samtökin reyna að koma til móts við þær óskir.
Undir samstöðukveðjuna rita Jan Davidsen forseti samtakanna og Kjartan Lund aðalritari.

Bréfið frá NOFS fer hér á eftir á sænsku á eftirfarandi hlekk.

www.bsrb.is/um-bsrb/frettir/nr/1413/

 

Samið við NTV um afslátt og sérstök námskeið fyrir BSRB félaga

Samið við NTV um afslátt og sérstök námskeið fyrir BSRB félaga

Undirritaður hefur verið samningur á milli BSRB og Nýja tölvu- og viðskiptaskólan um afsláttakjör fyrir BSRB félaga og sérstök námskeið í Office 2007 tölvuforritum, sem er nýjasta uppfærsla af algengustu forritum fyrir PC-tölvur. Samninginn undirrituðu Kristín Á. Guðmundsdóttir formaður fræðslunefndar BSRB og Jón Vignir Karlsson skólastjóri NTV.
Í samningnum felst m.a. að NTV veitir félagsmönnum og starfsmönnum aðildarfélaga og starfsmönnum BSRB 15% afslátt af öllum námskeiðum og námsbrautum sem NTV býður upp á. Ef NTV býður upp á önnur sérstök afsláttarkjör (t.d. fyrir þá sem skráðir eru atvinnulausir hjá Vinnumiðlun) þá dragast þau afsláttarkjör frá þ.e.a.s. ekki geti orðið um samanlagðan afsátt að ræða.

Þá tekur NTV að sér að skipuleggja og halda 25 „Office 2007 námskeið" samanber meðfylgjandi lýsingu á árinu 2009. Náist ekki að halda þessi 25 námskeið á árinu 2009 verða þau námskeið sem eftir eru haldin á vorönn 2010. Námskeiðin kostar 36.000 kr. á nemanda og eru öll námsgögn innifalin í því verði. Verð námskeiðsins verður uppfært 1. janúar 2010 miðað við verðlagsþróun.

 

Sjá samning BSRB og NTV

 

Sjá upplýsingar um Office 2007 námskeiðin

Sálrænn stuðningur í efnahagsþrengingunum

Sálrænn stuðningur í efnahagsþrengingunum

Elín Jónasdóttir sálfræðingur Rauða krossins mun halda fyrirlestur á vegum BSRB og Félagsmálaskóla alþýðu í fundarsölunum á jarðhæð BSRB - hússins þriðjudaginn 11. nóvember kl. 9:00 - 10:30. Fyrirlesturinn fjallar um gildi sálræns stuðnings í aðstæðum sem geta valdið áföllum og er hugsaður fyrir trúnaðarmenn aðildarfélaga BSRB.
Fundurinn verður sendur í fjarfundarbúnaði til 6 staða á landinu. Það er til Ísafjarðar, Sauðárkróks, Akureyrar, Egilsstaða, Vestmannaeyja og Selfoss. Skráning á námskeiðið er á skrifstofu BSRB í síma 525 8300, eða í netfang bsrb@bsrb.is
Móttökustaðir fjarfundanna eru:
Ísafjörður, fundarsalur Heilbrigðisstofnunarinnar.
Sauðárkrókur, Sjúkrahúsið á Sauðárkróki.
Akureyri, Símey, Þórsstíg 4.
Egilsstaðir, Þekkingarnet Austurlands, Tjarnarbraut 39e.
Vestmannaeyjar, Viska, Strandvegi 50.
Selfoss, Fræðslunet Suðurlands, Tryggvagötu 25.

BSRB býður upp á kaffi og meðlæti á fundunum.
Fyrirlesturinn verður tekinn upp og honum síðan streymt á heimasíðu BSRB.

Skattbyrði aukist mest hjá lægri tekjuhópum

Skattbyrði aukist mest hjá lægri tekjuhópum

Frá árinu 1993 til ársins 2007 hefur meðalhlutfall í tekjuskatti einstaklinga hækkað um rúmlega fimmtung og skattbyrði aukist mest í lægri tekjuhópunum. Þetta er ein af niðurstöðum í skýrslu nefndar á vegum fjármálaráðuneytisins sem hafði meðal annars það hlutverk að fara yfir íslenska skattkerfið. Nefndin lauk störfum 11. september síðastliðin eftir um tveggja og hálfs árs starf. Formaður nefndarinnar var Friðrik Már Baldursson og var fulltrúi BSRB í nefndinni Ragnar Ingimundarson hagfræðingur.Í 7. kafla skýrslunnar sem jafnframt er lokakafli hennar er fjallað um tekjujöfnun og skattbyrði í íslenska skattkerfinu. Þar kemur m.a. fram að á árabilinu 1993 til 2005 hafi skattbyrðin aukist um rúmlega 10 prósentustig í lægstu tekjubilum en fari minnkandi við hækkandi tekjur og deyi út við 90% mörkin (sjá töflu 7.2 hér að ofan). Ástæður þessarar þróunar eru m.a. sagðar vera vegna lækkandi álagningarhlutfalls sem ekki hafi dugað til að vega upp á móti hlutfallslegri lækkun persónuafsláttar, afnáms hátekjuskatts og lægri skatts af fjármagnstekjum.

Ef litið er til þeirra 5% hjóna sem höfðu hæstu tekjurnar hefur meðalskatthlutfallið lækkað verulega innan þess hóps eða um rúm 15 prósentustig ef litið er til heildartekna en um tæp 4% ef eingöngu er litið til heildarlauna. Þessi munur skýrist að stórum hluta af mikilli aukningu fjármagnstekna sem taldar eru með í heildartekjum en eru undanskildar þegar skattbyrði heildarlauna er reiknuð.

Á síðum 88 - 95 í skýrslunni er fjallað um tekjujöfnun og skattbyrði í íslenska skattkerfinu.

Sjá skattaskýrsluna í heild sinni