Ályktun stjórnar BSRB vegna gjaldskrárhækkunar OR

Stjórn BSRB mótmælir harðlega umfangsmiklum hækkunum á gjaldskrá Orkuveitu Reykjavíkur. Þær hafa áhrif til hækkunar vísitölu og þar með talið vísitölutengdra lána. Þær koma því almenningi sérstaklega illa. Með þeim veikir stjórn OR þá tilraun til stöðugleika sem reynt hefur verið að koma á í samfélaginu og býður þeirri hættu heim að aðrir fylgi í kjölfarið með gjaldskrárhækkanir.

Það er ótækt að einstakir notendur þurfi að greiða óráðsíufjárfestingar síðustu ára, þar sem eigendur tóku milljarða lán á sama tíma og þeir greiddu sjálfum sér háar upphæðir í arð. Um gríðarlega miklar hækkanir er að ræða og ljóst er að samkeppnisyfirvöld munu þurfa að skoða lögmæti þeirra, a.m.k. hvað dreifinguna varðar.

Ljóst er vandi OR er uppsafnaður og á honum verður að taka. Það má hins vegar ekki gera svo bratt að það komi almenningi í koll. Við þá vinnu verður jafnframt að hafa í huga að vernda grunnþjónustu við notendur og verja þau störf sem henni tengjast.