Ályktun stjórnar BSRB í tilefni kjaradeilu LSS

Stjórn BSRB vill árétta að verkfallsréttur stéttarfélaga er neyðarréttur þeirra og því mikilvægt að hann sé virtur af öllum sem hlut eiga að máli. Þennan rétt ber verkalýðshreyfingunni að verja og fara með af skynsemi og samkvæmt lögum.

Í tilefni kjaradeilu Landssambands slökkviliðs- og sjúkraflutningamanna áréttar stjórn BSRB að um löglega boðaðar aðgerðir er að ræða og öll inngrip þar í eru ólíðandi. Stjórn BSRB hvetur öll stéttarfélög til að vera á varðbergi og dragast ekki inn í deiluna.

Verkfallsréttur skiptir sköpum í kjarabaráttu. Þann rétt ber að virða og minnir BSRB aðila á að öll verkfallsbrot vinna gegn verkalýðshreyfingunni í heild sinni. BSRB hvetur deiluaðila til að setjast aftur að samningaborði og leysa málin, því það er eina færa leiðin fyrir samningsaðila.