Álit um rétt grunnskólabarna til náms í framhaldsskólaáföngum

Samband íslenskra sveitarfélaga (lögfræði- og velferðarsvið) hefur tekið saman álitsgerð um rétt grunnskólabarna til náms í framhaldsskólaáföngum. Tilefni álitsins er sú ákvörðun ríkisvaldsins, í fjárlögum ársins 2010, að greiða ekki fyrir einingabært nám í framhaldsskóla sem grunnskólanemendur stunda.

Í álitsgerðinni er fjallað um réttarstöðu grunnskólanemenda á grundvelli 4. mgr. 26. gr. grunnskólalaga. Sú lagagrein mælir fyrir um að börn í þremur efstu bekkjum grunnskóla eigi rétt á að stunda nám í einstökum námsgreinum á framhaldsskólastigi meðan þeir eru í grunnskóla enda hafi þeir sýnt fullnægjandi færni. Meginniðurstaða álitsins er að réttur grunnskólabarns skv. 4. mgr. 26. gr. grunnskólalaga sé sterkur og megi teljast lögvarinn skv. gildandi lagaákvæðum. Þá styrkir það réttinn frekar að hann styðst við ákvæði 76. gr. stjórnarskrárinnar, um að öllum skuli tryggður réttur til almennrar menntunar við sitt hæfi. Sambandið telur því réttarstöðu nemenda til muna sterkari en mennta- og menningarmálaráðuneytið hefur gefið til kynna í skriflegum svörum við fyrirspurnum um það efni, m.a. á vettvangi Alþingis.

Grunnskólanemendum sem jafnframt stunda einingabært nám í framhaldsskóla hefur fjölgað mikið á síðustu árum og voru þeir um 5,1% af öllum skráðum framhaldsskólanemendum haustið 2008. Niðurfelling þjónustu framhaldsskóla við grunnskólanemendur mun á árinu 2010 hafa áhrif á nám hátt í 1.500 grunnskólanemenda. Sparnaður ríkisins af þessu er varlega áætlaður 70 mkr. á árinu en getur að áliti sambandsins hæglega numið hærri fjárhæð.

Varðandi faglegar afleiðingar er í álitsgerðinni bent á að ákvörðun ríkisvaldsins vinni gegn markmiðum og anda nýrrar menntastefnu um að auka samfellu milli skólastiga. Faglega muni ákvörðunin valda umtalsverðum neikvæðum áhrifum og að rof muni verða í námi stórs hóps grunnskólanemenda.

Ljóst er að ákvörðun ríkisvaldsins er til þess fallin að auka útgjöld hlutaðeigandi grunnskóla, sem gefa þarf kost á námsvali í stað þeirra framhaldsskólaáfanga sem synjun framhaldsskóla varðar. Óvíst er hver kostnaðaráhrifin nákvæmlega verða en fyrir hendi er farvegur fyrir mat á þeim.

Í álitsgerðinni eru ennfremur veittar leiðbeiningar um viðbrögð skólastjóra grunnskóla við beiðnum frá nemendum um að stunda námsgreinar í framhaldsskóla.

Álitsgerðin hefur verið send öllum skólaskrifstofum, skólanefndum og skólastjórum grunnskóla, og er jafnframt aðgengileg hér fyrir neðan.

Álitsgerð um rétt grunnskólabarna til að stunda nám í framhaldsskólaáföngum.


Tillögur Sambands íslenskra sveitarfélaga um breytingar á grunnskólalögum o.fl. atriði frá desember 2009.