Ólögmæt uppsögn

Samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytið úrskurðaði ákvörðun sveitarfélags um uppsögn félagsmanns BSRB ólögmæta 18. nóvember s.l.

Málavextir eru þeir að BSRB kærði f.h. A ákvörðun leikskólastjóra um uppsögn ráðningarsamnings til samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytisins. A hafði starfað á leikskólanum frá 2006 sem rekinn er á vegum sveitarfélagsins. Í maí s.l. var A boðuð á fund með dags fyrirvara sem varðaði möguleg starfslok hennar. Fundurinn átti sér stað daginn eftir. Þar var A sagt að hún starfaði ekki í samræmi við stefnu leikskólans og tilkynnt að borist hefðu kvartanir frá foreldrum vegna „hryssingslegrar" framkomu hennar við börnin. Síðar þann sama dag var A afhent uppsagnarbréf þar sem tekið var fram að ekki væri óskað eftir vinnuframlagi hennar í uppsagnarfresti. A hafði aldrei fengið skriflega áminningu eða athugasemdir við störf sín. En samkvæmt kjarasamningi er áminning undanfari lögmætrar uppsagnar ef ástæður starfslokanna varða starfsmanninn sjálfan. Sveitarfélagið taldi uppsögnina lögmæta þar sem að tvisvar hefðu verið gerðar ákveðnar athugasemdir við störf hennar.

Ráðuneytið taldi álitaefni málsins vera tvö, annars vegar lögmæti áminningar sem sveitarfélagið taldi sig hafa veitt A og hins vegar lögmæti uppsagnar A.

Ráðuneytið taldi að í þeirri kjarasamningsgrein sem fjallar um áminningu sem undanfara uppsagnar felist eftirfarandi þrjú skilyrði: Í fyrsta lagi að skylt sé að veita starfsmanni áminningu sem undanfara uppsagnar, í öðru lagi að áminning skuli vera skrifleg og í þriðja lagi að veita skuli andmælarétt, bæði áður en áminnt er og einnig áður en uppsögn fer fram í kjölfar áminningar. Þessum reglum til viðbótar gildi ákvæði stjórnsýslulaga um meðferð málsins enda áminning stjórnvaldsákvörðun í skilningi þeirra laga. Taldi ráðuneytið því að A hefði ekki verið áminnt í samræmi við það sem kveðið er á um í kjarasamningi. Uppsögnin væri því ólögmæt.

Þá þótti einnig ástæða til að kanna hvort andmælaréttar hefði verið gætt gagnvart A áður en henni var sagt upp störfum. Eins og áður hefur komið fram var A ekki áminnt formlega áður en henni var sagt upp. Þá voru henni ekki kynntar skriflega þær ávirðingar sem á hana voru bornar, áður en henni var sagt upp. Taldi ráðuneytið ljóst af málatilbúnaði að andmælaréttar hafi ekki verið gætt gagnvart A með þeim hætti sem stjórnsýslulög og kjarasamningur gera ráð fyrir. Enda var því haldið fram af hálfu A að henni hafi ekki verið að fullu kunnungt um efni þeirra ávirðinga sem á hana voru bornar fyrr en undir rekstri kærumálsins og því aldrei átt þess kost að tjá sig um þær með fullnægjandi hætti.

Niðurstaða málsins var sú að ekki hafi verið gætt réttrar málsmeðferðar við uppsögn A. Hún hafi ekki verið áminnt með þeim hætti sem skýrt er kveðið á um í kjarasamningi að gera skuli sem undanfara uppsagnar og ekki veittur andmælaréttur. Var því talið að uppsögn á ráðningarsamningi hennar væri ólögmæt.

Úrskurðinn má sjá hér