Vona að fleiri bæjarfélög skoði launamál sín út frá kynbundnum launamun

Stjórnendur Reykjanesbæjar fullyrða í grein í Fréttablaðinu í dag að hjá Reykjanesbæ sem vinnuveitanda finnist enginn kynbundinn launamunur. Farið hefur verið yfir launabókhald stofnana bæjarins og heildarlaun vegna sömu eða sambærilegra starfa borin saman með fyrrgreindum niðurstöðum. BSRB fagnar framtaki Reykjanesbæjar og vonar að fleiri bæjarfélög fylgi fordæmi þeirra.

„Nýleg launakönnun BSRB leiddi í ljós að óútskýrður kynbundinn launamunur hjá hinu opinbera er í dag að meðaltali 13,1%. Í framhaldi hefur ríkisstjórnin kynnt sérstaka aðgerðaáætlun um launajafnrétti þar sem skoða á launamál hjá ráðuneytum og stofnunum þeirra. Þá hafa nokkur sveitarfélög boðað að þeirra launamál verði rækilega skoðuð með það að markmiði að mæla kynbundinn launamun og útrýma honum ef hann finnst," segir Elín Björg Jónsdóttir, formaður BSRB, og bætir við:

„BSRB fagnar þessu framtaki og við viljum að launagreiðendur fari ofan í sín mál og leiðrétti þann launamun sem finnst við þær athuganir. Markmiðið er alltaf að útrýma kynbundnum launamun og launagreiðendurnir eru í kjöraðstöðu til að skoða þessi mál án mikillar fyrirhafnar þar sem þeir hafa aðgang að öllum launaupplýsingum. BSRB hefur leitast við að fá aðgang að launaupplýsingum til að geta skoðað kynbundinn launamun en ekki fengið. Þess vegna höfum við þurft að framkvæma okkar eigin launakannanir til að fá einhverja mynd af því hvort og hversu mikill kynbundinn launamunur er. Ef þessar aðgerðir okkar eru að hreyfa við launagreiðendum hins opinbera þá er tilganginum að hluta til náð. En aðalmarkmiðið er að uppræta launamuninn," segir Elín Björg og ítrekar að til að svo geti orðið verði frumkvæðið að koma frá launagreiðendunum sjálfum.

„Það gleður mig að sjá hversu alvarlega launagreiðendur hins opinbera eru að taka niðurstöðum okkar könnunar og hversu ríkur vilji er til að uppræða kynbundinn launamun. En við munum halda áfram að framkvæma okkar kannanir og fylgja málinu eftir enda verður við ekki sátt fyrr en óútskýrður launamunur er úr sögunni."

Því má svo bæta við að nýverið samþykkti svo Samfélags- og mannréttindaráð Akureyrarbæjar að láta vinna nýja könnun hjá bænum til að mæla hvort kynbundinn launamun sé þar að finna. Sambærileg könnun var framkvæmd árið 2007 og verður nýja könnunin framkvæmd nú í nóvember. Eiríkur Björn Björgvinsson, bæjarstjóri á Akureyri, segir að sveitarfélaginu sé mikið í mun að staða kynjanna sé jöfn á öllum sviðum og að með rannsókn utanaðkomandi fagaðila verði hægt að birta raunsanna mynd af stöðunni.

BSRB hvetur alla launagreiðendur á opinberum vinnumarkaði til að skoða sín launamál með tilliti til kynbundins launamunar og framkvæma leiðréttingar á kjörum þar sem það á við.