Viðsnúningur í efnahagslífinu

Steingrímur J. Sigfússon, atvinnuvega- og nýsköpunarráðherra, flutti ræðu á fjármálaráðstefnu sveitarfélaga í dag. Í ræðu sinni lagði hann áherslu á þrjá meginpunkta; Tilurð nýs atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytis, viðsnúning í efnahagslífinu og aðgerðir til að styðja við og efla vöxt hagkerfisins.

Megin markmiðið með sameiningu ráðuneyta var að efla stjórnarráðið og gera það skilvirkara, auka möguleika til sérhæfingar og miða að því að búa í haginn fyrir öflugt og framsækið atvinnulíf.

Með því að steypa saman iðnaðarráðuneytinu, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytinu og viðskiptahluta efnahags- og viðskiptaráðuneytisins er orðið til öflugt 70 manna ráðuneyti atvinnuvega og nýsköpunar sem hefur afl og burði til að ráða við þau mikilvægu verkefni sem við blasa.

 

Íslandsbanki og Hagstofan hafa nýlega lýst yfir ákveðinni bjartsýni varðandi horfur í efnahagsmálum á Íslandi. Íslandsbanki segir að hagvaxtarhorfur séu nokkuð góðar, bankinn telur að atvinnulífið muni ná viðspyrnu og að heimilin munu komast uppúr öldudalnum. Þá hefur þróun atvinnuleysis verið að horfa til betri vegar og atvinnuvegafjárfestingar aukist nokkuð.

Gert er ráð fyrir að fjárfestingaráætlunin í heild skapi 4.000 bein störf, en m.v. algengar forsendur um óbein og afleidd störf má ætla að heildaráhrifin verði um 11.000 störf.

 

Fjárfestingaráætlunin er ekki aðeins mikilvæg fyrir ríkið, sveitarfélögin hagnast sömuleiðis. Auknar tekjur, minni atvinnuleysi og ekki síst fjárfesting í innviðum samfélagsins.

Glærusýningu frá atvinnuvega- og nýsköpunarráðherra má sjá á vefsíðu fjármálaráðstefnunnar.