Viðræðum við sveitarfélögin slitið - deilan til ríkissáttasemjara

Samninganefnd  bæjarstarfsmannafélaga innan BSRB sem eru í samfloti, sem og stéttarfélög innan Starfsgreinasambandsins slitu síðdegis í dag kjaraviðræðum við samninganefnd sveitarfélaganna og vísuðu deilunni til ríkissáttasemjara. Arna Jakbína Björnsdóttir, formaður Kjalar, sem er í forsvari fyrir samstarfið segir hvorki hafa gengið né rekið síðustu þrjá sólarhringa í viðræðum um launalið nýs kjarasamings en þar er ásteitingarsteinninn öðru fremur.

"Ástæðan fyrir þessari stöðu er fjölþætt. Nýgert SALEK samkomulag er augljóslega að trufla viðræðurnar en líka nýgert starfsmat sem stéttarfélögin og sveitarfélögin stóðu að. Vissulega veldur það kostnaðarauka fyrir sveitarfélögin en vert er að minna á að unnið hefur verið að endurnýjuðu starfsmati síðustu sex árin og margir starfsmenn sveitarfélaganna eru að fá leiðréttingu miðað við sitt starf og ábyrgð. Sveitarfélögin ætla sér hins vegar að blanda starfsmatshækkunum inn í kjarasamningagerðina núna, draga með öðrum orðum úr launahækkunum á samningstímanum til að mæta starfsmatinu. Á það föllumst við að sjálfsögðu ekki og höfum teygt okkur eins langt og mögulegt er að að mæta sveitarfélögunum, m.a. með tilboði um dreifingu launahækkana á samningstímanum. Það hefur því miður engu skilað við samningaborðið og því eigum við ekki annarra kosta völ en vísa deilunni til ríkissáttasemjara. Samningsviljann skortir að okkar mati hjá samninganefnd sveitarfélaganna," segir Arna Jakobína.