Varað við áhrifum hækkunar óbeinna skatta á skuldastöðu heimilanna

Stjórn BSRB gerir sér fulla grein fyrir nauðsyn þess að ríkissjóður afli sér aukinna tekna í gegnum skattkerfið en varar við þeim áhrifum sem boðaðar breytingar á óbeinum sköttum munu hafa á verðlag og þar með skuldastöðu heimilanna. Afar mikilvægt er að skatta­hækkanir hafi ekki áhrif á neysluverðsvísitöluna.

42. þing BSRB ályktaði um slæma skuldastöðu heimila í kjölfar efnahagshrunsins. Gengis­hrunið og verðbólguskotið varð til þess að höfuðstóll lána hækkaði á sama tíma og kaup­máttur launa minnkaði verulega.

Verði fyrirhugaðar breytingar óbreyttar að lögum munu þær hafa bein áhrif á verðlag og þar með neysluverðsvísitöluna. Höfuðstóll og greiðslubyrði verðtryggðra lána mun hækka verulega og er ljóst að margar fjölskyldur standa ekki undir þeim auknu byrðum. Þá er vafamál að ávinningur ríkissjóðs af þessum breytingum sé mikill því breytingin hefur í för með sér frekari kaup­máttarskerðingu sem mun draga úr neyslu almennings og þar af leiðandi tekjum til ríkissjóðs.

Þá mótmælir stjórn BSRB því að ríkisstjórnin felli einhliða úr gildi samkomulag aðila vinnumarkaðarins um verðtryggingu persónuafsláttar.