Umfangsmiklum niðurskurði lokið

Steingrímur J. Sigfússon fjármálaráðherra segist vonast til þess að umfangsmiklum niðurskurði sé lokið, þó enn þurfi að beita aðhaldsaðgerðum. Í samtali við BSRB tíðindi sagði hann ríkisstjórnina hafa sett sér það markmið varðandi samneysluna að útgjöld til hennar færu aldrei niður fyrir 25% af vergri landsframleiðslu. Steingrímur segir það markmið enn í gildi. Vonir standi til þess að miklum niðurskurði, af þeirri stærðargráðu sem við höfum séð, sé lokið og á næstu tveimur árum nægi að hafa skýr aðhaldsmarkmið. Ljóst sé enda að komið sé að ákveðnum mörkum sem ákaflega sársaukafullt væri að fara yfir.

„Þetta þýðir hins vegar að aðlögunin sem eftir er þarf að verða meiri á tekjuöflunarhliðinni. Við vonumst hinsvegar eftir því að það verði fyrst og fremst með því að umsvif aukist aftur í hagkerfinu og tekjustofnarnir skili sjálfkrafa meiru. Það er því gríðarlega mikilvægt hagsmunamál að koma hagvextinum og hjólum atvinnulífsins betur af stað. Með því ætti drjúgur hluti þess gats sem eftir er í raun og veru að hverfa af sjálfu sér. Við þurfum að beita stífu aðhaldi á útgjaldahliðina, en það væri þó óábyrgt að lofa því að ekki verði farið í einhverjar tekjuöflunaraðgerðir. Við vonumst þó til þess að þær þurfi ekki að vera umfangsmiklar og aukin umsvif í hagkerfinu skili stærstum hluta þess sem vantar upp á til að fylla upp í gatið."
Steingrímur segir einnig að það geti verið óskynsamlegt að fara í mikið meiri uppsagnir og það gæti komið í bakið á mönnum síðar meir. „Ef ríkið hefði ekki fengið á sig allar þessar skuldir og búið yfir einhverju skuldaþoli hefðum við viljað setja meira fé í opinberar framkvæmdir, skera minna niður í rekstri og hafa þannig örvandi áhrif á hagkerfið. Því var hinsvegar ekki til að dreifa."

Viðtalið við Steingrím má lesa í heild sinni í BSRB tíðindum.