Stytting vaktavinnu - allt að 32 stunda vinnuvika

Eins og stefnt var að tók um áramótin við styttri vinnuvika hjá mörgum félagsmönnum F.O.S.Vest. Enn er þó eftir að ganga frá styttingu á nokkrum vinnustöðum. 

Sumstaðar hefur ferlið gengið vel eins og hjá Ísafjarðarbæ þar sem ákveðið var að fara í fulla styttingu. Einnig átti félagið ákaflega ánægjulegt samstarf við Orkubú Vestfjarða um styttingu vinnuvikunnar sem skilaði sér í styttingu í 36 stundir 1. janúar í mismunandi útfærslum eftir vinnustöðum.

Næsta verkefnið í vinnutímastyttingunni er stytting í vaktavinnu sem taka á gildi 1. maí. Styttingin í vaktavinnu getur orðið allt að 32 stunda vinnuvika og fer það eftir samsetningu vakta en aldrei minna en í 36 stundir.

Mikilvægt er fyrir vaktafólk að gera sér grein fyrir hvernig ferlið er og nota vaktareiknirinn á  betrivinnutími.is til að skoða hvaða áhrif styttingin hefur á þeirra vinnu. Hér er leiðbeiningarbæklingur þar sem farið er ýtarlega yfir ferlið. Einnig er tilvalið að kíkja á þetta frábæra video:

Við minnum á markmiðin með styttingu vinnuvikunnar sem skjalfest voru í nýjustu kjarasamningum bæði við ríkið og sveitarfélögin:

 • Stytta vinnuvikuna
 • Auka öryggi starfsfólks og skjólstæðinga
 • Gera vaktavinnu eftirsóknarverðari
 • Bæta samþættingu vinnu og einkalífs
 • Vinnutími og laun taki betur mið af vaktabyrði og verðmæti staðins tíma
 • Bæta andlega, líkamlega og félagslega heilsu starfsfólks
 • Bæta starfsumhverfi
 • Auka stöðugleika í mönnun
 • Jafna stöðu kynjanna á vinnumarkaði
 • Draga úr þörf og hvata til yfirvinnu
 • Auka hagkvæmni í nýtingu fjármuna
 • Bæta gæði opinberrar þjónustu


Eins og áður hvetjum við þá félagsmenn, sem standa í eldlínunni á sínum vinnustöðum við að innleiða vinnutímastyttinguna, að hafa samband við skrifstofu félagsins í tölvupósti, í síma 456-4407, á vefnum, á facebook eða með því að bóka viðtalstíma á skrifstofu. Við höfum tímabundið aukið við starfskrafta á skrifstofunni til að við getum aðstoðað ykkur eins vel og hægt er.

Vinnum saman og bætum lífsgæðin okkar með styttri vinnuviku!