Skrifað undir stöðugleikasáttmála

Skrifað var undir stöðugleikasáttmála aðila vinnumarkaðarins og ríkisstjórnarinnar í Þjóðmenningarhúsinu kl. 13:30. Markmið sáttmálans er að stuðla að endurreisn efnahagslífsins. Í framhaldi af undirskriftinni munu opinberir starfsmenn hefja samningaviðræður við ríki og sveitarfélög um nýja kjarasamninga en aðilar á almenna vinnumarkaðinum hafa náð samkomulagi um framlengingu kjarasamninga til haustsins 2010.
Þeir sem standa að stöðugleikasáttmálanum eru BSRB, ASÍ, BHM, KÍ, SSF, SA, ríkisstjórnin og Samband íslenskra sveitarfélaga.

Í sáttmálanum kemur m.a. fram að aðilar séu sammála um að mikilvægt sé að styrkja stöðu heimilanna, verja undirstöður velferðarkerfisins, standa vörð um menntakerfið og verja störf jafnt á almennum vinnumarkaði sem og hjá hinu opinbera.

Sáttmálinn er í 14 liðum. Þar er m.a. fjallað um kjarasamninga, aðgerðaáætlun í ríkisfjármálum til ársins 2013, stöðu heimilanna, endurreisn atvinnulífsins og bankanna, gjaldeyrismál, málefni sveitarfélaga, vexti, lífeyrismál o.fl.