Skattbyrði aukist mest hjá lægri tekjuhópum

Frá árinu 1993 til ársins 2007 hefur meðalhlutfall í tekjuskatti einstaklinga hækkað um rúmlega fimmtung og skattbyrði aukist mest í lægri tekjuhópunum. Þetta er ein af niðurstöðum í skýrslu nefndar á vegum fjármálaráðuneytisins sem hafði meðal annars það hlutverk að fara yfir íslenska skattkerfið. Nefndin lauk störfum 11. september síðastliðin eftir um tveggja og hálfs árs starf. Formaður nefndarinnar var Friðrik Már Baldursson og var fulltrúi BSRB í nefndinni Ragnar Ingimundarson hagfræðingur.Í 7. kafla skýrslunnar sem jafnframt er lokakafli hennar er fjallað um tekjujöfnun og skattbyrði í íslenska skattkerfinu. Þar kemur m.a. fram að á árabilinu 1993 til 2005 hafi skattbyrðin aukist um rúmlega 10 prósentustig í lægstu tekjubilum en fari minnkandi við hækkandi tekjur og deyi út við 90% mörkin (sjá töflu 7.2 hér að ofan). Ástæður þessarar þróunar eru m.a. sagðar vera vegna lækkandi álagningarhlutfalls sem ekki hafi dugað til að vega upp á móti hlutfallslegri lækkun persónuafsláttar, afnáms hátekjuskatts og lægri skatts af fjármagnstekjum.

Ef litið er til þeirra 5% hjóna sem höfðu hæstu tekjurnar hefur meðalskatthlutfallið lækkað verulega innan þess hóps eða um rúm 15 prósentustig ef litið er til heildartekna en um tæp 4% ef eingöngu er litið til heildarlauna. Þessi munur skýrist að stórum hluta af mikilli aukningu fjármagnstekna sem taldar eru með í heildartekjum en eru undanskildar þegar skattbyrði heildarlauna er reiknuð.

Á síðum 88 - 95 í skýrslunni er fjallað um tekjujöfnun og skattbyrði í íslenska skattkerfinu.

Sjá skattaskýrsluna í heild sinni