Skammtímasamningur við ríkið í höfn

Gengið var frá samningi aðildarfélaga BSRB sem áttu lausa samninga við ríkið 1. maí sl. við samninganefnd ríkisins rétt í þessu. Samið var til skamms tíma eða til loka mars á næsta ári. Samið var um 20.300 króna hækkun frá 1. maí. Einnig var samið um hækkun greiðslu ríkisins í styrkarsjóði BSRB um 0,2%, fer úr 0,55% í 0,75% um næstu áramót. Þá er í samningnum gengið frá ýmsum öðrum réttindamálum.
Ögmundur Jónasson formaður BSRB sagðist ánægður með að samningar hafi náðst. "Við lögðum upp með að samið yrði til skamms tíma og það gekk eftir. Væntingar höfðu kviknað um sérstakt framlag til umönnnunarstétta í samræmi við kröfur BSRB en það var blásið af sem er miður. Á heildina litið tel ég mjög hyggilegt að semja á þeim nótum sem var gert."

Strax verður farið í að kynna samningana og er stefnt að því að atkvæðagreiðslu um þá verði lokið fyrir 20. júní.

Meðal annarra atriða sem samið var um er að desemberuppbótin hækkar úr 41.800 í 44.100 krónur. Tryggt er framlag til endurmenntunarsjóða BSRB og framlag til að efla trúnaðarmannakerfið. Þá var ákveðið að efna til umræðu um að stuðla að endurhæfinu fyrir þá sem misst hafa starfsorku og kanna hvort farið verði út á svipaða braut og samið var um á almennum marlkaði en ekkert endanlegt hefur verið ákveðið í þeim efnum annað en að BSRB verði tryggt sambærilegt framlag til endurhæfingar og samið var um á almennum markaði.
Félagsmenn FOS-Vest athugið:
Sérmál vegna Félags opinberra starfsmanna á Vestfjörðum. Persónuuppbót í desember 2008 skv.grein 1.7.1 verður kr. 47.000,-

Sjá samning hér:
http://bsrb.is/files/1715236593drög_250508_kl2330samnbsrbriki.pdf