Samstaða, samvinna og samráð

Troðfullt var á fundi Ögmundar Jónassonar heilbrigðisráðherra með trúnaðarmönnum verkalýðsfélaga innan heilbrigðisþjónustunnar þar sem staða mála og framtíðarhorfur voru til umræðu. Í máli hans kom fram að aldrei hefur verið mikilvægara að standa vörð um heilbrigðisþjónustuna en nú og til þess þurfi samstöðu allra sem innan hennar vinna.

Ögmundur sagði að sam- væri mikilvægasta forskeyti dagsins í dag og komandi framtíðar. Samstaða, samvinna og samráð ættu að vera leiðarljósið við þau verkefni sem framundan væru í heilbrigðisþjónustunni. Velferðarmál eru líka atvinnumál! Heilbrigðisráðherra boðaði til fundarins í samstarfi við BSRB og Starfsgreinasamband Íslands.

Fundurinn var haldinn í húsakynnum BSRB að Grettisgötu 89 kl. 16.

Heilbrigðisráðherra boðar til vinnufundar um heilbrigðisþjónustu á morgun þriðjudaginn 7. apríl nk. Með vinnudeginum lýkur fundaröð um heilbrigðisþjónustu á tímum hagræðingar þar sem framtíð heilbrigðisþjónustunnar er tekin til opinnar umræðu. Heilbrigðisráðherra vill með þessu boða starfsfólk heilbrigðisþjónustunnar til opins vinnudags 7. apríl 2009, á alþjóðaheilbrigðisdeginum. Í heilbrigðisþjónustunni standa menn frammi fyrir nýjum viðfangsefnum við nýjar kringumstæður á komandi misserum og tilgangurinn með vinnudeginum er að gefa öllu heilbrigðisstarfsfólki færi á að setja fram skoðanir sínar á því sem framundan er. Til að tryggja megi góða heilbrigðisþjónustu á erfiðum tímum þurfa allar fagstéttir og heilbrigðisyfirvöld að vinna sameiginlega að því að leysa þau verkefni sem framundan eru. Meðal þess sem rætt verður á vinnudeginum er forgangsröðun í heilbrigðisþjónustunni, kröfur um lýðræðisleg vinnubrögð, samspil hins andlega og líkamlega og hvernig tryggja má heilbrigðisþjónustu í krepputíð. Sjá nánar dagskrá vinnudagsins: VINNUDAGUR (pdf skjal).