Samkomulag um sameiningu F.O.S.Vest og Kjalar

Aðalfundur Félags opinberra starfsmanna á Vestfjörðum (F.O.S.Vest)  var haldinn í dag, 31.maí 2021. Fyrir utan venjuleg aðalfundarstörf voru kynnt drög að samkomulagi um sameiningu F.O.S.Vest og Kjalar stéttarfélags starfsmanna í almannaþjónustu. 

Aðalfundurinn samþykkti einróma heimild til formanns F.O.S.Vest um að undirrita samkomulagið og að fresta aðalfundi fram í október þar sem kosið verður endanlega um sameiningu félaganna að undangenginni kynningu og samtali við félagsmenn.

Ef af sameiningu félaganna verður munu félagsmenn F.O.S.Vest njóta bættrar þjónustu t.d. varðandi réttindagæslu, fræðslumál, rafræna þjónustu og orlofsbústaðamál auk þess sem sameinað félag verður öflugri viðsemjandi um kaup og kjör.

Gert er ráð fyrir að skrifstofa verði áfram á Ísafirði og starfsemi hennar verði í nánu samstarfi við aðrar skrifstofur Kjalar.