Samið við sveitarfélögin

Flest aðildarfélög BSRB sem semja við Launanefnd sveitarfélaga skrifuðu undir nýjan kjarasamning fyrr í kvöld. Samningurinn er mjög á svipuðum nótum og kjarasamningur Starfsmannafélags Reykjavíkurborgar sem undirritaður var í gær og samningurinn við ríkið á föstudag. Megináhersla við gerð samninganna var lögð á að hækka launataxta sem eru undir 180.000 kr. og kemur sú hækkun í þremur áföngum.

Taxtar undir 180 þúsund krónum hækka um 6.750 kr. 1. júlí og 1. nóvember og um 6.500 kr. 1. júní 2010. Laun upp að 210.000 krónum hækka árið 2009 en launahækkanir fara stiglækkandi eftir því sem launatalan hækkar. Árið 2010 munu taxtar upp að 225 þúsund krónum hækka. Laun fyrir ofan það munu ekki breytast.

Þau félög sem skrifuðu undir kjarasamninga voru Kjölur, Samflotið, Starfsmannafélag Kópavogs, Starfsmannafélag Reykjavíkurborgar og Starfsmannafélag Suðurnesja. Í Samflotinu eru FOSA, FOSS, FOSVest, Starfsmannafélag Dala- og Snæfellssýslu, Starfsmannafélag Fjallabyggðar, Starfsmannafélag Fjarðabyggðar, Starfsmannafélag Hafnarfjarðar, Starfsmannafélag Húsavíkur, Starfsmannafélag Mosfellsbæjar, Starfsmannafélag Seltjarnarness, Starfsmannafélag Skagafjarðar og Starfsmannafélag Vestmannaeyja.

Starfsmannafélag Garðabæjar, Sjúkraliðafélag Íslands og Landssamband slökkviliðs- og sjúkraflutningamanna eru ekki aðilar að samningnum.

Sjá kjarasamningana við Launanefnd sveitarfélaga á kjaravef BSRB