Orlofshús á Spáni

Ágætu félagsmenn.

Síðasta sumar ákváðu SDS, St. Fjall, Fos- Vest og Stavey að hafa með sér samstarf um orlofsmál félaganna. Markmið þessa samstarfs var að skapa félagsmönnum meira val og að ná betri og hagkvæmari nýtingu á þeim eignum sem félögin eiga. Það má segja að þetta samstarf hafi farið vel af stað, félagsmenn ánægðir með fjölbreytara úrval og þægilegt notendavænt umhverfi á orlofsvef Samflotsins.

Stjórnir og orlofsnefnd þessara félaga hafa ákveðið að halda þessu samstarfi áfram og munu á komandi orlofsári sameinast um að félagsmenn njóti sem best allra þeirra kosta sem í boði verða. SDS hefur síðustu tvö ár boðið félagsmönnum sínum uppá að leigja sumarhús á Spáni, Mosfell. Þessi kostur hefur verið vinsæll og gefið félagsmönnum tækifæri á að komast í sólina á ódýran og öðruvísi hátt heldur en í pakkaferðum. Orlofsnefnd félaganna hefur nú ákveðið að framlengja þann leigusamning fyrir félagsmenn allra félaganna.

Mosfell er í ca. 10 mín akstri frá Torrevieja og um 45 mín akstur er til Alicante. Skemmtileg staðsetning og fjölskylduvænt umhverfi. Mjög stutt er að fara á ströndina og í verslanir. 3 frábærir golfvellir eru í aðeins 5 mín. akstursfjarlægð frá húsinu.

Mosfell er endaraðhús í Senorio de Cabo Roig garðinum sem er í Lomas de Cabo Roig hverfinu. Sumarhúsið er í litlum lokuðum garði, gisting er fyrir 6-8 manns, húsið er vel útbúið, stutt á matsölustaði ef þú villt borða úti og góð aðstæða ef þú villt elda sjálfur. Stutt á ströndina, gólfvellina og eitt stærsta moll í evrópu Zenia Boulevard er stutt frá. Á heimsíðu húsins tilspanar.is er að finna allar upplýsingar um húsið og svæðið í kring ásamt upplýsingum um verslanir, veitingarhús, afþreyingu  já, og um allt annað sem gott er að vita.

Ekki spillir fyrir að orlofsjóðir félaganna greiða niður leiguna, félagsmenn fá vikuna á kr. 35.000. Mörgum ykkar finnst kannski skrýtið að vera nú í október að spá í orlofsmál komandi sumars, en þetta er gert svona snemma vegna þess að þessa dagana eru flugfélögin og  ferðaskrifstofurnar að bjóða allskonar tilboð á flugi til Alicante. Eins er alltaf gott að geta skipulagt utanlandsferðina með góðum fyrirvara.

Til að allir félagsmenn séu jafnir verður opnað á orlofsvefnnum Hannibal, fyrir umsóknir 23.10.2014. og verður hún opin til 30.10.2014. Þá verður úthlutað til þeirra félagsmanna sem sóttu um en það er gert eftir punktastöðu og þeim reglum sem gilda um úthlutun hjá félögunum Tilkynnt með pósti 3. nóvember hverjir fengu úthlutað. Við erum með tvö tímabil til útleigu um páska, frá 31. mars 2015 til 14. ágúst 2015 og frá 26. maí 2015 til 15. sept. 2015.  Á tímabilinu frá 2.6.2015 til 8.9.2015 eru eingöngu leigðar út tvær vikur í einu. Annan tíma er hægt að fá viku í senn. Við erum með forgang fyrir fleiri vikum ef mikil aðsókn verði í húsið, t.d. getum við fengið húsið leigt um jólin 2015. Hægt er að skoða hvað er í boði á orlofssíðunni Hannibal

Eftir 3.11.2014 geta félagsmenn sótt um þær vikur sem verða í boði eftir reglunni fyrstur kemur fyrstur fær. Allar nánari upplýsingar um húsið og það sem er í boði á svæðinu er á heimasíðunni http://tilspanar.is/ 

Það er von okkar að þessi nýjung komi félagsmönnum okkar til góða og þeir verði duglegir að nýta sér þennan kost.