Nauðsynlegt að styrkja innviði samfélagsins og efla grunnþjónustu

"Við þær aðstæður sem nú eru uppi er nauðsynlegt að styrkja innviði samfélagsins og efla grunnþjónustu þess. Öflugt velferðarkerfi gerir okkur kleift að standa af okkur verstu áföllin og með samstöðu mun þjóðinni takast að vinna bug á erfiðleikunum. Forsendur samstöðunnar eru jöfnuður og félagslegt réttlæti," segir m.a. í ályktun stjórnar BSRB sem samþykkt var í dag.

Ályktunin er birt í heild sinni hér:

Reykjavík 22. maí 2009
Ályktun stjórnar BSRB

BSRB fagnar því að ríkisstjórnin sé reiðubúin til viðræðna við aðila vinnumarkaðarins um samráð og samstöðu um stöðugleikasáttmála. Án samráðs verður engin sátt um þær aðgerðir sem nauðsynlegar eru til að vinna þjóðina út úr þeim miklu erfiðleikum sem hún stendur nú frammi fyrir.

Staða íslenskra heimila er erfið um þessar mundir. Þótt ýmislegt hafi verið gert til að aðstoða þá sem verst hafa orðið úti er ljóst að grípa þarf til enn víðtækari aðgerða. Heimilin eru mjög skuldsett og vegna efnahagshrunsins hafa lánin rokið upp, bæði verðtryggð lán og gengistryggð lán, á sama tíma og húsnæðisverð hefur hrapað og veruleg kaupmáttarrýnun átt sér stað. Það gengur ekki að bíða eftir því að gjaldþrotahrina skelli á áður en gripið er til frekari aðgerða heldur þarf að koma í veg fyrir slíkt með fyrirbyggjandi ráðstöfunum. BSRB hefur áður bent á að nauðsynlegt sé að taka verðtryggingu íbúðalána til endurskoðunar enda byggir hún á þriggja ára gömlu neyslumynstri að meðaltali sem engan veginn endurspeglar gjörbreyttar aðstæður í dag. Þetta á ekki síst við um þróunina síðustu 15 mánuðina. BSRB telur nauðsynlegt að verðtrygging lána verði tekin til rækilegrar skoðunar og breyting á henna verði gerð í áföngum.

BSRB telur að sú áhersla sem lögð er á að verja velferðarkerfið í samstarfsyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar sé afar mikilvæg.Við þær aðstæður sem nú eru uppi er nauðsynlegt að styrkja innviði samfélagsins og efla grunnþjónustu þess. Öflugt velferðarkerfi gerir okkur kleift að standa af okkur verstu áföllin og með samstöðu mun þjóðinni takast að vinna bug á erfiðleikunum. Forsendur samstöðunnar eru jöfnuður og félagslegt réttlæti.

BSRB varar við því að með niðurskurði hjá opinberum aðilum verði gripið til uppsagna starfsmanna. Atvinnuleysi er eitt versta böl hvers samfélags og verður að berjast gegn því af alefli. Það verður ekki gert með uppsögnum, slíkt hefur einungis í för með sér aukin útgjöld úr Atvinnuleysistryggingasjóði þannig að sparnaður verður lítill sem enginn. Eina leiðin til að vinna bug á atvinnuleysinu er að skapa fleiri störf og aðstæður þannig að hjól atvinnulífsins fari aftur að snúast.

BSRB fagnar því að í yfirlýsingu ríkisstjórnarinnar sé talað um að hún muni beita sér fyrir opinni stjórnsýslu, auknu gagnsæi og lýðræðisumbótum. Enn sem komið er verður þó almenningur lítið var við þetta aukna gagnsæi og er mikilvægt að gerð verði þar bragarbót á sem fyrst.