Málefnahópar langt komnir með störf sín

Viðræður um þríhliða stöðugleikasáttmála aðila vinnumarkaðarins og ríkisins hafa haldið áfram og eru málefnahópar um ríkisfjármál, efnahags- og atvinnumál að skila áfangaskýrslum. Stefnt er að því að ríkisstjórnin leggi fram bandorm um ríkisfjármálin í lok vikunnar þar sem kynntar verða aðgerðir til að ná fram 20 milljarða króna sparnaði á fjárlögum þessa árs. Upp úr 20. júní á síðan að liggja fyrir áætlun um aðgerðir í ríkisfjármálum til ársins 2013.

Viðræður um launalið samninga hafa legið niðri og er vonast til að þær viðræður hefjist aftur í næstu viku.

Hugmyndir félagsmálaráðherra um aðgerðir voru kynntar fulltrúum málefnahóps um ríkisfjármál á sunnudag og var fjallað um þær á fundi samningsaðila í gær. Þá hafa fulltrúar aðila vinnumarkaðarins átt fund með fulltrúum ríkisstjórnar og stjórnarandstöðu.