Menningarhátíð í Munaðarnesi


Myndlistarsýning Ingibergs Magnússonar verður opnuð á menningarhátíð BSRB í Munaðarnesi laugardaginn 20. júní kl. 14. Á hátíðinni mun Einar Már Guðmundsson rithöfundur lesa úr eigin verkum og Þóra Einarsdóttir óperusöngkona syngur við undirleik Önnu Guðnýjar Guðmundsdóttur. Ögmundur Jónasson formaður BSRB flytur ávarp. Að lokinni dagskrá er boðið upp á léttar veitingar. Hátíðin er ókeypis og öllum opin.
Menningarhátíð BSRB er fastur liður í menningarlífi Borgarfjarðar og hefur ætíð verið mjög vel sótt enda dagskráin metnaðarfull og margir af fremstu listamönnum þjóðarinnar hafa komið fram á henni. Sýning Ingibergs verður opin til 1. október.
Ingiberg Magnússon er kennslustjóri listnámsbrautar Fjölbrautaskólans í Breiðholti. Hann lauk námi frá Myndlista- og handíðaskóla Íslands árið 1979. Ingiberg hefur haldið fjölda einkasýninga auk þess að taka þátt í fjölmörgum samsýningum hér á landi og erlendis.