Málþing um stefnumörkun í heilbrigðismálum á ÍslandiHollvinasamtök líknardeilda hafa ákveðið að standa að málþingi um stefnumörkun í heilbrigðismálum Íslendinga. Markmiðið með málþinginu er að stuðla að því að koma á notendamiðuðu heilbrigðis- og velferðarkerfi í samráði við skoðanir og vilja fólksins í landinu, samtök sjúklinga og aðstandenda þeirra og starfsfólk í heilbrigðisþjónustu. Málþingið fer fram í dag á Grand hótel frá kl. 13 til 17.

Á málþinginu verða kynntar frumhugmyndir að notendamiðuðu heilbrigðis- og velferðarkerfi, sem móta ætti í samráði við fólkið í landinu, notendur og aðstandendur sjúklinga. Fyrirmyndin að því er sótt til sambærilegs kerfis í Noregi, Samhandlingsreformen, sem mótað var í samræmi við nýja stefnu Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar - WHO.

Markmið málþingsins er að skapa umræðu en um leið hafa áhrif á Alþingi, ríkisstjórn, stjórnvöld og og sveitarstjórnir, að móta heildarstefnu í heilbrigðismálum þar sem tekið verði fullt tillit til hugsmuna sjúklinga og fólksins í landinu. Fjallað verður um nærþjónustu, þjónustu við aldraða og líknarmeðferð, stærð, staðsetningu, skipulag og samstarf sjúkrastofnana, félagslega áhrifaþætti á heilsu, heildarstjórn heilbrigðismála og kostnaðarskiptingu.