Liðsstyrkur: Nýtt átaksverkefni fyrir atvinnuleitendur

Liðsstyrkur: Nýtt átaksverkefni fyrir atvinnuleitendur

15.1.2013

Liðsstyrkur er nýtt átaksverkefni sem er formlega kynnt til sögunnar í dag. Markmið verkefnisins er að virkja atvinnuleitendur, sem hafa fullnýtt eða munu fullnýta rétt sinn innan atvinnuleysistryggingakerfisins á árinu 2013, til þátttöku að nýju á vinnumarkaði.

Stefnt er að því að öllum atvinnuleitendum sem fullnýttu eða fullnýta rétt sinn á tímabilinu frá 1. september 2012 fram til 31. desember 2013, samtals 3.700 manns, verði öllum boðin vinna eða starfsendurhæfing á árinu 2013 enda skrái þeir sig til þátttöku í átakið. Sköpuð verða 2.200 tímabundin ný störf fyrir langtímaatvinnuleitendur í þessum hópi á árinu 2013.

Sveitarfélög munu bjóða 660 störf, ríkið 220 störf og almenni vinnumarkaðurinn 1.320 störf. Til viðbótar verður þeim sem á þurfa að halda boðin starfsendurhæfing. Allir atvinnuleitendur innan þessa hóps sem skrá sig munu fá tilboð um starf. Markmiðið er að enginn falli af atvinnuleysisbótum án þess að fá slíkt tilboð.

Atvinnuleysistryggingasjóður niðurgreiðir stofnkostnað atvinnurekenda við ný störf tímabundið og nemur styrkur með hverri ráðningu grunnatvinnuleysisbótum ásamt 8% framlagi í lífeyrissjóð, samtals kr. 186.417. á mánuði. Atvinnurekandi gerir síðan hefðbundinn ráðningarsamningi við atvinnuleitanda og greiðir honum laun samkvæmt kjarasamningi.

Þeim atvinnuleitendum sem þurfa á starfsendurhæfingu að halda verður vísað til VIRK, starfsendurhæfingarsjóðs og boðin starfsendurhæfing.

Sérstakur biðstyrkur er í boði fyrir þá atvinnuleitendur sem hafa verið skemur en 42 mánuði á bótum þegar þeir missa bótarétt sinn. Sá styrkur er tímabundinn í allt að sex mánuði eða þar til viðkomandi fær tilboð um starf. Styrkfjárhæð svarar til fyrri bótaréttar einstaklings.

Frekari upplýsingar um verkefnið má nálgast á vef átaksins.