Láglaunafólk fær óskertar barnabætur

Katrín Júlíusdóttir, fjármála- og efnahagsráðherra, lýsti því yfir í hádegisfréttum Rúv í dag að þeir sem eru á lágmarkslaunum fái óskertar barnabætur eftir þær breytingar sem fyrirhugaðar eru á barnabótakerfinu á næsta ári. Þessu fagnar BSRB enda hafa barnabætur og tekjuskerðingarmörk þeirra ekki verið hækkuð frá árinu 2009 og á sama tíma hefur kaupmáttur barnabóta rýrnað um tugi prósenta.

 

Fjármála- og efnahagsráðherra sagði í sama viðtali að útreikningar BSRB um að tekjuskerðingarmörk barnabótanna samkvæmt hinum nýju tillögum yrðu lægri en lágmarkslaun byggða á misskilningi. Katrín Júlíusdóttir sagði meintan misskilning BSRB felast í því að skerðingarmörkin taki mið af tekjuskattstofni. „Og í þessu tilfelli þá eru skerðingarmörkin yfir tekjuskattstofninum. Það er ekki tekið tillit til heildarlauna vegna þess að þegar við tölum um tekjuskattstofn þá eru það laun mínus 4% í lífeyrissjóði," sagði Katrín í hádegisfréttum Rúv.

BSRB stendur við fyrri útrekninga sína um að lágmarkslaun á árinu 2013 samkvæmt kjarasamningum eru yfir tekjuskerðingarmörkum barnabóta samkvæmt núverandi tillögum. Bandalagið áréttar jafnframt að æskilegt sé að láta mörkin liggja ofar en ráðgert er.

BSRB birtir hér dæmi máli sínu til stuðnings. Dæmið er af hefðbundnum félagsmanni BSRB. Félagsmaðurinn þiggur lágmarkslaun á árinu 2013 samkvæmt kjarasamningi við Reykjavíkurborg. Heildarlaun viðkomandi á árinu 2013 væru samkvæmt því 2.534.700, frá skattskyldum tekjum myndu dragast lífeyrissjóðsgreiðslur á árinu, alls 101.388. Tekjuskattstofninn yrði þá að endingu 2.433.312. Þótt munurinn sé ekki mikill eru skattskyldar tekjur samt sem áður 33.312 krónum yfir fyrirhuguðum tekjuskerðingarmörkum.

 

 

Dæmi um félagsmann BSRB í starfi hjá Reykjavíkurborg

Í heild 2013

Lágmarkslaun (204.000 á mánuði)

2.448.000

Orlofsuppbót (28.700 kr.) og desemberuppbót (58.000.kr.)

86.700

Laun alls

2.534.700

Lífeyrisgreiðsla (4%)

101.388

Tekjuskattsstofn

2.433.312

(Dæmið er reiknað út frá kjarasamningi SFR við Reykjavíkurborg)