Kosningar á þingi PSI í dag

Annar dagur þings Alþjóðasamtaka opinberra starfsmanna (PSI) í Durban í Suður Afríku er farinn af stað og í dag verður farið yfir framkvæmdaáætlun samtakanna til næstu fimm ára auk þess sem kosið verður í embætti framkvæmdastjóra.

 

Undanfarin fimm ár hefur Peter Waldorff gegnt embætti framkvæmdastjóra PSI en hann hefur fengið mótframboð frá varaformaður samtakanna, hinni ítölsku Rosu Pavanelli. Þau fluttu bæði framboðsræður sínar í gær og kosið verður í embættið þegar líður á daginn.

Auk kosninga fer fram mikil málefnavinna þar sem sameiginleg verkefni stéttarfélaga opinberra starfsmanna um heim allan eru fyrirferðamikil. Ber þar hæst mannréttindi, baráttan gegn félagslegu undirboði, atvinnuleysi og kynbundin launamunur og ofbeldi. Þá er líka fjallað um þróun lýðræðis í heiminum þar sem það virðist í sumum heimshlutum vera að aukast á meðan á það hefur hallað annars staðar.

Fulltrúar BSRB á þinginu að þessu sinni eru Elín Björg Jónsdóttir, formaður BSRB, Árni Stefán Jónsson, fyrsti varaformaður BSRB og Kristín Á. Guðmundsdóttir, ritari framkvæmdanefndar BSRB.