Kjarakönnun BSRB: Nærri tveir þriðju telja álag hafa aukist
Undanfarið hefur verið fjallað um mikla aukningu á greiðslum úr sjúkrasjóðum verkalýðshreyfingarinnar. Sú aukning hefur að hluta verið rakin til aukins álags á starfsfólk sem veldur auknum líkamlegum og andlegum veikindum með tilheyrandi fjarvistum frá vinnu. Niðurstöður kjarakönnunar BSRB styðja þessar skýringar með afgerandi hætti.
Samkvæmt niðurstöðum könnunarinnar eru aðeins um 3% sem telja álag í vinnu hafa minnkað frá fyrra ári á meðan um þriðjungur telur álagið óbreytt. Nærri 39% telja álag sitt hafa aukist eitthvað á tímabilinu og nærri 24% telja það hafa aukist til muna á síðustu 12 mánuðum. Þannig telja nærri 63% félagsmanna BSRB að álag þeirra í starfi hafi aukist á síðasta ári.
Þegar rýnt er í aðrar spurningar er varða álag, líðan í vinnunni og áhrif þess á frítíma sést að fjórðungur svarenda segir að það komi oft fyrir þeir eigi erfitt með að hætta að hugsa um vinnuna þannig að það komi niður á frítíma þeirra og einkalífi. Rúm 56% segjast sjaldan upplifa þetta og tæp 19% segjast hvorki oft né sjaldan upplifa neikvæð áhrif á frítíma. En 25% svarenda segjast oft eiga erfitt með að hætta að hugsa um vinnuna svo það hafi áhrif á einkalíf þess.
Enn fleiri segjast svo upplifa það mikla þreytu að loknum vinnudegi að það hafi töluverð áhrif á einkalífið. Tæplega 28% svarenda segjast frekar eða mjög oft upplifa það mikla þreytu að loknum vinnudegi að þeir eigi erfitt með að gera nokkurn skapaðan hlut. Um 18% segjast hvorki oft né sjaldan upplifa slíka þreytu að loknum vinnudegi á meðan tæplega 55% segjast sjaldan upplifa slíka þreytu.