Kjarakönnun BSRB: Kynbundinn launamunur 13,1%

Samkvæmt niðurstöðum úr kjarakönnun BSRB sem Capacent framkvæmdi fyrir bandalagið er kynbundinn launamunur á meðal félagsmanna BSRB rúmlega 13% á landsvísu. Launamunur innan ákveðinna landshluta er nokkuð ólíkur, frá 10% og alveg upp í nærri 19%.

 

Um heildstæða launakönnun á meðal félagsmanna BSRB var að ræða þar sem að úrtakið var um 20 þúsund félagsmenn bandalagsins. Svarhlutafall var rúmlega 50% og því þykja niðurstöður könnunarinnar gefa nokkuð góða vísbendingu um kjaramál opinberra starfsmanna sem aðild eiga að BSRB.

Könnunin leiddi í ljós að á meðal fólks í 100% starfi eru konur að jafnaði með 26% lægri uppreiknuð heildarlaun en karlar. Þegar tekið hafði verið tillit til aldurs, vinnutíma, starfsaldurs, starfstéttar, menntunar, atvinnugreinar og vaktaálags kom í ljós að munur á heildarlaunum karla og kvenna var 13,1%. Þetta er það sem er kallaður óútskýrður kynbundinn launamunur, þ.e. að karlar og konur á svipuðum aldri, með sama starfsaldur, í sömu starfsstétt, með sambærilegan vinnutíma, sambærilega menntun og með sambærilegt vaktaálag séu með mismunandi laun eftir kyni.

Kynbundni launamunurinn mældist nokkuð misjafn á milli landshluta. Mestur var hann á Vesturlandi, Vestfjörðum og Suðurlandi eða á bilinu 18,6% til 18,8%. Minnstur var launamunurinn á Austurlandi, 10%. Sjá má nánari útskýringar á þessu á myndinni hér að neðan þar sem blái liturinn stendur fyrir mun á meðallaunum en grái liturinn fyrir kynbundinn launamun.

Kynbundinn launamunur á meðal félagsmanna BSRB mældur eftir landshlutum

Heilt yfir mælist kynbundinn launamunur nokkuð svipaður og í fyrra þótt hann hafi aukist örlítið frá síðustu mælingum. Launamunurinn virðist því aftur vera að aukast eftir að hafa minnkað talsvert fyrstu árin eftir hrun.

Könnun BSRB sýnir líka að konur fá síður hlunnindi og aukagreiðslur en karlar. Þessar aukagreiðslur hafa verið að aukast aftur núna allra síðustu misserin eftir að hafa verið skornar verulega niður eftir efnahagshrun. Þessar greiðslur virðast í ríkari mæli rata í launaumslög karla en kvenna sem kann að hluta að útskýra hvers vegna kynbundni launamunurinn er aftur að aukast.

Könnun BSRB sýnir líka að konur eru ósáttari við laun sín en karlar og einnig sýnir könnunin fram á að álag hefur aukist á meirihluta félagsmanna BSRB á síðasta ári en tæp 63% segjast finna fyrir auknu álagi í starfi. Álag hefur frekar aukist hjá konum en körlum samkvæmt niðurstöðum könnunarinnar.