Kjarakönnun BSRB

Nú stendur yfir kjarakönnun BSRB og munu félagsmenn eiga von á hringingu eða tölvupósti þess efnis.  Við viljum eindregið hvetja okkar félagsmenn til að taka þátt í könnuninni til að fá fram nákvæmar mælingar.  Í síðustu launakönnun var dræm þátttaka félagsmanna Fos-Vest og því sýndu mælingar ekki nógu skýra mynd af stöðunni. 

 

Samkvæmt síðustu kjarakönnun BSRB var kynbundinn launamunur nokkuð meiri hjá ríkinu en sveitarfélögum. Kynbundinn launamunur á heildarlaunum félagsmanna BSRB mælist 14,8% hjá þeim sem starfa hjá ríkinu en 10,2% hjá þeim sem fá laun sín greidd frá sveitarfélögum. 

 

Við frekari greiningu sást að launamunurinn var enn meiri þegar heildarlaun félagsmanna á höfuðborgarsvæðinu voru borin saman við þeirra á landsbyggðinni. Kynbundinn launamunur starfsmanna ríkisins á höfuðborgarsvæðinu mælist 14,1% en 8,4% hjá starfsmönnum sveitarfélaganna á sama landssvæði.

Á landsbyggðinni mælist kynbundinn launamunur á meðal félagsmanna BSRB sem þiggja laun sín frá ríkinu 18,7% en 16,2% hjá þeim sem starfa hjá sveitarfélögunum úti á landi. Frekari upplýsingar um kynbundinn launamun á milli landsbyggðar og höfuðborgarsvæðis eftir því hvort viðkomandi félagsmenn starfa hjá ríki eða sveitarfélagi má sjá hér. Í þessu skjali má svo sjá kynbundinn launamun á landinu öllu eftir því hvort launagreiðandinn er ríki eða sveitarfélag.