Kjaradeilu sambandsins og KÍ vegna Félags grunnskólakennara vísað til ríkissáttasemjara

Í gær vísuðu samninganefndir Sambands íslenskra sveitarfélaga og Félags grunnskólakennara  kjaradeilu sinni til ríkissáttasemjara. Sameiginleg greiningarvinna aðila og undirbúningsviðræður hafa staðið yfir í meira en ár, en formlegar viðræður síðan í ágúst.

Í kjaraviðræðunum  við Félag grunnskólakennara (FG) hefur samninganefnd Sambands íslenskra sveitarfélaga (SNS) lagt megináherslu á að færa vinnutímakafla kjarasamningsins nær því sem gerist hjá öðrum háskólastéttum. Endurskoða þarf vinnutímakaflann frá grunni svo hann innihaldi þann sveigjanleika, sem nauðsynlegur er, til að mæta þeim breytingum sem orðið hafa á starfsemi grunnskólans á undanförnum árum.

Til að draga úr því verkefnaálagi sem kennarar upplifa telur SNS vænlegra til árangurs að mæta álaginu með markvissri stjórnun og forgangsröðun verkefna fremur en að fjölga kennurum og fækka í nemendahópum eins og FG hefur lagt til. Einnig er mikilvægt að vinnutímakaflinn skapi skýr skil milli vinnu og einkalífs kennara. Í lögum um grunnskóla nr. 91/2008 er sveitarfélögum lögð sú skylda á herðar að setja almenna stefnu um  grunnskólahald í sveitarfélaginu og kynna það fyrir íbúum þess. Það er því á ábyrgð skólastjórnenda og skólayfirvalda í hverju sveitarfélagi að forgangsraða verkefnum samkvæmt lögum, reglugerðum og aðalnámskrá. Ákvörðun um nauðsynlegan starfsmannafjölda í hverjum skóla er á hendi sömu aðila og verður ekki ákveðin í kjarasamningi, að mati SNS.

 

Tillögur SNS miða að því að skapa forsendur fyrir aukinni samvinnu og auka möguleika skólastjórnenda til að skipuleggja skóladaginn og störf kennara eftir þörfum skólans og nemenda hverju sinni. Til að ná þessu markmiði er lykilatriðið að vinnutími kennara verði samfelldur og unnin á vinnustað.

Markmið Sambands íslenskra sveitarfélaga í kjaraviðræðum við Félag grunnskólakennara, samkvæmt bókun 2 með kjarasamningi aðila, eru:

  • að færa vinnutímakafla kjarasamningsins nær því sem gerist hjá öðrum háskólastéttum
  • að vinnutímakaflinn styðji við sveigjanlegt skólastarf og hafi jákvæð áhrif á samstarf og starfsánægju kennara
  • að vinnutímakaflinn styðji skólastjóra og kennara betur í að dreifa vinnuálagi milli einstakra kennara
  • að finna leiðir til hagkvæmari rekstrar grunnskólanna, sem skapi jafnframt tækifæri til launahækkana kennara
  • að vinna áfram að framgangi sameiginlegrar framtíðarsýnar með hliðsjón af niðurstöðum könnunar á viðhorfum kennara til eigin starfs og þróunar skólastarfs

Viðbótarmarkmið samkvæmt niðurstöðu starfshóps aðila um hlutverk kennara eru:

Endurskoða skal skilgreiningu á vinnuframlagi frá grunni í þeim tilgangi:

  • að auka sveigjanleika til að mæta þörfum hvers skóla og starfsmanna hans
  • að raunvinnutími kennara verði í samræmi við ákvæði kjarasamnings um heildarvinnuframlag
  • að útfærsla á skiptingu vinnutíma kennara taki mið af því að kennarar vinna ekki allir sömu verkefni og þau taka mismunandi tíma
  • að gera sameiginlega áætlun sem tryggi framkvæmd nýs kjarasamnings