Jólakveðja

Nú er þetta sérstaka og erfiða ár senn á enda. Þó er það svo að 2020 hefur að mörgu leyti verið gott ár þegar horft er á þá kjarabaráttu sem farið hefur fram í skugga heimsfaraldursins. Viðunandi árangur náðist í kjarasamningum á fyrri hluta ársins og raunverulega tókst að stytta vinnuvikuna þó það verði gert með misjöfnu móti þegar upp verður staðið.

Þegar þetta er skrifað er ekki ljóst hversu mikil styttingin verður hjá öllum félögum í F.O.S.Vest þar sem enn er verið að vinna að útfærslu. Ég hvet þá félagsmenn sem enn eru að vinna að styttingunni á sínum vinnustað til að hafa samband við skrifstofu félagsins ef þeir þurfa aðstoð.

Hluti af samkomulagi um vinnutímastyttingu í síðustu kjarasamningum er að leita skuli leiða til að hagræða þannig að styttingin sé bæði til hagsbóta fyrir starfsmenn og viðkomandi starfsemi. Það er því mikilvægt að félagsmenn leggi sitt af mörkum og sýni ábyrgð þannig að báðir aðilar verði sáttir þegar upp er staðið.

Við höfum öll þurft að leggja mikið á okkur á árinu sama hvaða starfi við gegnum. Félagsmenn F.O.S.Vest eru allir í almannaþjónustu og hafa staðið í Covid-19 eldlínunni eða unnið við að halda innviðum okkar í gangi. Það hafa allir staðið sig frábærlega og ég veit að svo verður einnig á komandi ári. 

Samhjálp er rituð í lög félagsins og á árinu hefur reynt á hana. Þeim félagsmönnum sem hafa veikst og slasast á árinu eða eiga um sárt að binda færi ég sérstakar kveðjur um bata. 

Flest okkar hlakkar til að horfa á eftir 2020 og taka á móti 2021 með von í brjósti um að það verði betra og að við sjáum raunverulega til lands. Með þá von í brjósti óska ég félagsmönnum F.O.S.Vest gleðilegra jóla og farsæls komandi árs.