Jafnréttisráðstefna á Ísafirði 20. apríl Edinborgarhúsinu

ÍSAFJÖRÐUR: 20. apríl kl. 11:30-14:00 - Edinborgarhúsið, Aðalstræti 7

Boðið verður upp á hádegisverð. 

Skreppur og Pollýanna - Samræming fjölskyldulífs og atvinnu, kynhlutverk og eðli starfa
Dr. Gyða Margrét Pétursdóttir, aðjúnkt í kynjafræði við Stjórnmálafræðideild Háskóla Íslands
Íslenskar konur vinna að jafnaði 36 stundir á viku sem er sambærilegt vinnutíma norskra karla. Íslenskir karlar vinna lengri vinnudag. Á sama tíma er fæðingartíðni á Íslandi með því mesta sem gerist í Evrópu auk þess sem atvinnuþátttaka íslenskra kvenna er meiri en víðast hvar í hinum vestræna heimi. Konur bera meginábyrgð á umönnun barna og umsjón heimilis, þó þær séu mun oftar í störfum sem bjóða upp á minni sveigjanleika og sjálfræði en störf karla sem ættu þar af leiðandi að eiga auðveldara með en konur að samræma fjölskyldulíf og atvinnu. Á móti kemur að margir karlar virðast sækja tilverurétt sinn í vinnuna: „Ég er af því að ég vinn" og til þess er ætlast að þeir eyði sem mestum tíma á vinnustaðnum. Í erindinu verður sjónum beint að samræmingu fjölskyldulífs og atvinnu, kynhlutverkum og eðli starfa.

Kerfið og kynin: Líðan og virkni á unglingastigi
Kristján Ketill Stefánsson, stundakennari og doktorsnemi við Háskóla Íslands
Í þessum fyrirlestri verður rýnt í nýjar heildarniðurstöður úr sjálfsmatskerfinu Skólapúlsinn www.skolapulsinn.is . Á yfirstandandi skólaári hafa 58 grunnskólar tekið þátt í að meta líðan, virkni og skóla- og bekkjaranda sinnar stofnunar. Niðurstöður Skólapúlsins sýna athyglisverðan mun á líðan og viðhorfum drengja og stúlkna almennt. Í fyrirlestrinum verða jafnframt kynntar samtímakenningar um uppeldi og þroska drengja og stúlkna sem settar verða í samhengi við niðurstöður úr Skólapúlsinum. Sérstaklega verður rætt um niðurstöðurnar í ljósi ólíkra samfélagsgerða á Íslandi.


Ráðstefnan er opin öllum og við hvetjum áhugasama, til að koma og taka virkan þátt í umræðum um jafna stöðu kynjanna.
Jafnrétti verður ekki náð án nýrra viðhorfa og þátttöku allra.

Munið skráning á: http://www.sfr.is/forsida/jofn-stada-kynjanna---isafirdi/