Íbúðalánasjóður stofnar leigufélag

Leigufélag í eigu Íbúðalánasjóðs verður stofnað á næstu dögum. Þetta kemur fram á forsíðu Fréttablaðsins í dag. BSRB fagnar þessum áfanga enda hefur bandalagið lengi talað fyrir aðkomu hins opinbera að íslenskum leigumarkaði.

 

Félagið verður sjálfstætt og mun halda utan um leigu á íbúðum sjóðsins án þess að skila hagnaði samkvæmt því sem Fréttablaðið hefur eftir framkvæmdastjóra ÍLS, Sigurði Erlingssyni.

Guðbjartur Hannesson velferðarráðherra segir að með félaginu eigi að búa til úrræði á leigumarkaði. Það sé hluti af framtíðarsýn varðandi eflingu húsaleigumarkaðar.

„Hluti af þeirri hugsun eru húsaleigubætur og þegar þær komast á, og verða efldar, þá munum við tryggja framboð og eðlilega samkeppni í sambandi við leiguverð. Hugmyndin er að leigan verði miðuð við það að félagið standi undir sér, en ekkert meira."

Alls verða á bilinu 600-700 íbúðir settar inn í leigufélagið en flestar þeirra eru nú þegar í útleigu. Stofnun leigufélagsins mun auka búsetuöryggi leigjenda félagsins en óöryggi á leigumarkaði hefur verið eitt helsta vandamálið hingað til.

BSRB lítur á það sem skref í rétta átt að stofna leigufélag utan um ónotaðar íbúðir ÍLS en vonast jafnframt eftir áframhaldandi aðkomu opinberra aðila að leigumarkaðnum í framtíðinni. Mikill skortur er á leiguhúsnæði víða um landið og áfram verður að vinna að því að finna farsæla, viðráðanlega og varanlega lausn á húsnæðismálum landsmanna.