Íbúðalánasjóður stefnir á stofnun leigufélags um áramótin

BSRB hefur átt í viðræðum við ríki, sveitarfélög og Íbúðalánasjóð síðustu ár um aðkomu þeirra að uppbyggingu leigufélags til að gera íslenskan leigumarkað að raunhæfari valkosti en nú er. Bandalagið fagnar þess vegna þeim fréttum að Íbúðalánasjóður stefni að því að stofna leigufélag sem taki um áramót við rekstri um 30-40% af eignum sjóðsins.

Íbúðalánasjóðurinn á í dag rúmlega 2.000 íbúðir en flestar þeirra hefur sjóðurinn leysti til sín á undanförnum árum, þar af 500 íbúðir á fyrri hluta þessa árs. Alþingi veitti Íbúðalánasjóði á síðasta þingi heimild til að stofna leigufélag, m.a. eftir þrýsting frá fulltrúum BSRB þar um. Formleg ákvörðun um stofnun leigufélags hefur ekki verið tekin en stefnt sé að því að hefja rekstur slíks félags um áramótin.

Sigurður Erlingsson, framkvæmdastjóri Íbúðalánasjóðs segir vinnuhóp vinna að stofnun félagsins en í raun breyti það ekki miklu fyrir þá leigjendur sem nú þegar leigja íbúðir af sjóðnum. Þó megi segja að þegar eignirnar séu komnar inn í leigufélag liggi fyrir stefnumörkun um að þær verði til útleigu til lengri tíma.

„Hugsunin með stofnun þessara félags er líka að auka framboð húsnæðis á leigumarkaði. Þeir sem eru að leigja hjá okkur og fara ekki inn í þetta leigufélag vita að þeir eru í skammtímaleigu," segir Sigurður í samtali við Morgunblaðið.

BSRB fagnar því að til standi að stofna leigufélag og telur að slíkt sé mikilvægt fyrst skref til að efla leigumarkaðinn á Íslandi og um leið gera hann að raunhæfari langtímakosti í húsnæðismálum hérlendis. BSRB vonar enn fremur að vel verði staðið að starfseminni og leigufélagið ekki aðeins hugsað sem tímabundinn lausn á vanda Íbúðalánasjóðs heldur liður varanlegri lausn á þeim mikla skorti á íbúðarhúsnæði sem ríkt hefur á Íslandi um árabil.