Í tilefni Alþjóðlegs baráttudags kvenna: Margt óunnið enn 8.3.2013

Alþjóðlegur baráttudagur kvenna er haldinn hátíðlegur dag. Uppruna dagsins er að rekja til ársins 1910 er fjöldi kvenna frá ólíkum löndum söfnuðust saman og ákváðu að haldinn skyldi árlega alþjóðlegur baráttudagur kvenna. Fyrstu árin voru baráttumálefnin kosningaréttur kvenna og samstaða verkakvenna. Þótt margt hafi áunnist í baráttunni fyrir jöfnum rétti frá því baráttudagurinn var fyrst haldinn hátíðlegur er enn fyllsta ástæða fyrir áframhaldandi baráttu kvenna. Baráttu kvenna fyrir auknu jafnrétti, á vinnumarkaði, innan menntastofnana sem og á heimilunum. Því er mikilvægt að halda heiðri þessa dags áfram á lofti, sýna samstöðu um vilja til breytinga og leggja okkar af mörkum til að breyta hugsunarhætti til að stuðla að frekari jöfnuði í framtíðinni.

Í tilefni dagsins verður í dag sem fyrri ár haldinn hádegisverðarfundur á Grand Hótel en í ár verður áhersla lögð á vakningu umræðu um kynskiptan vinnumarkað. Yfirskrift fundarins er: Kynhlutverk og kynskiptur vinnumarkaður - ný kynslóð, nýjar hugmyndir? Á Íslandi búum við enn við nokkuð kynskiptan vinnumarkað sem birtist skýrt í hugmyndum fólks um „hefðbundin kvennastörf" og „hefðbundin karlastörf".

Mikilvægt er komast að því hvað veldur þeirri kynjaskiptingu sem virðist vera innbyggð í íslenskan vinnumarkað. BSRB hefur margsinnis lýst þeim vilja sínum að farið verði ofan í kjölinn á því hvað veldur svo mikilli kynskiptingu á vinnumarkaði sem raunin er. Bandalagið hefur lýst þeirri skoðun sinni að hið opinbera verði að koma að því verkefni enda þarf að greina á hverju starfsval ungs fólks byggir. Öðruvísi erum við ófær um að brjóta upp núverandi mynstur og auka fjölbreytni. Viðfangsefni okkar hlýtur að vera að búa þannig í haginn að komandi kynslóðir líti ekki á ákveðin störf sem annað hvort störf fyrir karla eða konur.

Um leið og ég óska öllum til hamingju með daginn hvet ég alla til að kynna sér þá viðburði sem fram fara í tilefni Alþjóðlegs baráttudags kvenna og taka þátt. Samstaða okkar allra er það eina sem getur breytt hugmyndum okkar um kynhlutverk á vinnumarkaði, stuðlað að frekara jafnrétti og gefið komandi kynslóðum meira val og meiri fjölbreytni, samfélaginu öllu til góða.

Elín Björg Jónsdóttir, formaður BSRB

Í tilefni alþjóðabaráttudags kvenna er haldinn fundur á Grand Hótel Reykjavík, Gullteigi B föstudaginn 8. mars nk. kl. 11:45-13:00. Í upphafi fundar er framreidd létt máltíð og kaffi á kr. 2.500.  Yfirskrift fundarins er:Kynhlutverk og kynskiptur vinnumarkaður - ný kynslóð, nýjar hugmyndir? Fundarstjóri er Signý Jóhannesdóttir. Þrjú erindi verða flutt:

 • Er þetta veröld sem við viljum?" Um ungt fólk og jafnréttisviðhorf. Andrea Sigrún Hjálmsdóttir, lektor í félagsfræðivið Háskólann á Akureyri.
 • Hefur klámvæðingin áhrif á kynskiptan vinnumarkað?Hanna Björg Vilhjálmsdóttir, kennari í Borgarholtsskóla og forkona Jafnréttisnefndar KÍ.
 • Starfsval í valdakerfi. Guðbjörg Vilhjálmsdóttir, prófessor í náms- og starfsráðgjöf við Félags- og mannvísindadeild Háskóla Íslands.

Að fundinum standa auk BSRB: Kennarasambands Íslands, Jafnréttisstofa, Jafnréttisráð, ASÍ og BHM. Dagskráin fer fram í Gullteigi B og hefst kl. 11:45. Í upphafi fundar er framreiddur léttur hádegismatur. 

Þá munu Menningar- og friðarsamtökin MFÍK, BHM - Bandalag háskólamanna, BSRB - Bandalag starfsmanna ríkis og bæja, Femínistafélag Íslands, Kennarasamband Íslands, Kvenfélagasamband Íslands, Kvennahreyfing Öryrkjabandalags Íslands, Kvenréttindafélag Íslands, Samtök kvenna af erlendum uppruna, Samtök um Kvennaathvarf, SFR- stéttarfélag í almannaþjónustu, SHA - Samtök hernaðarandstæðinga, Sjúkraliðafélag Íslands, Stígamót og Starfsmannafélag Reykjavíkurborgar standa fyrir fundi kl. 17:00 í Iðnó sama dag. Dagskrá þess fundar verður sem hér segir:

 • Hildur Lilliendahl: Femínismi, aktívismi og internetið
 • Elsa B. Friðfinnsdóttir: "Tvær vikur að vinna fyrir gúmmístígvélum"
 • Nurashima A Rashid: Réttur kvenna til heilbrigðis, ekki auðveld barátta
 • Kristín Á. Guðmundsdóttir: Upprætum launamisrétti - opnum augun fyrir nýjum gildum í heilbrigðisþjónustunni
 • Maríanna Traustadóttir: Jafnlaunastaðall - nýtt verkfæri
 • Steinunn Rögnvaldsdóttir: Stríðið gegn konum
 • Birna Þórðardóttir: Ein- með öðrum
 • Heiða Eiríksdóttir stýrir fjöldasöng
 • Fundarstjóri: Lilja Nótt Þórarinsdóttir