Góður árangur af Vinnandi vegi

Góður árangur hefur náðst af átakinu Vinnandi vegur samkvæmt upplýsingum frá stjórnarformanni Vinnumálastofnunar. Um 70% þeirra sem fengu vinnu í sumar í gegnum átakið höfðu verið án vinnu í meira en ár en gera má ráð fyrir að meirihluti þeirra sé nú kominn með framtíðarstarf, segir Runólfur Ágústsson, stjórnarformaður Vinnumálastofnunar.

Fréttastofa Rúv greindi frá árangrinum í hádegisfréttum sínum í dag þar sem rætt var við Runólf um árangurinn af átaksverkefninu Vinnandi vegi. Mörgum sem misstu vinnuna eftir efnahagshrunið hefur reynst erfitt að fóta sig á vinnumarkaði. Margir þeirra hafa því verið án vinnu árum saman en markmið átaksins var einmitt að koma þeim hópi aftur til starfa.

„Um sjötíu prósent ráðninga af þessum 1400 ráðningasamningum eru við einstaklinga sem höfðu verið án vinnu í meira en 12 mánuði. Þannig að það markmið að koma langtímaatvinnuleitendum fram fyrir í ráðningaröðina - það tókst," sagði Runólfur Ágústsson, stjórnarformaður Vinnumálastofnunar í hádegisfréttum Rúv.

„Um helmingur atvinnuleitenda hefur aðeins grunnskólanám að baki og sá hópur var um 70 prósent ráðninganna, sem er fagnaðarefni," segir Runólfur og bætir við: „Reynslutölur segja okkur að um 60 prósent þeirra sem hafa farið í svona starfstengd úrræði, halda sinni vinnu þegar styrkgreiðslum lýkur."

BSRB fagnar þessum árangri og mun halda áfram að þrýsta á stjórnvöld að standa að fleiri átaksverkefnum sem miða að því að koma atvinnulausum aftur á vinnumarkaðinn. Góður árangur af þessu verkefni hlýtur að vera hvattning til þess að halda þessu góða starfi áfram og setja enn frekari fjármuni til svipaðra verka. Árangurinn til lengri tíma er ótvíræður.