Fréttir af málefnum fatlaðra

Skrifað undir heildarsamkomulag - af fréttavéf bb.is
Heildarsamkomulag ríkis og sveitarfélaga um yfirfærslu á þjónustu við fatlaða var undirritað í fyrradag. Með því hefur enn einum verkþætti yfirfærsluverkefnisins verið hrint í framkvæmd. „Er nú hafið yfir allan vafa að frá og með 1. janúar 2011 munu sveitarfélögin í landinu taka við ábyrgð á framkvæmd þessa mikilvæga en um leið viðkvæma málaflokks,“ segir á vef Sambands íslenskra sveitarfélaga. Samhliða undirritun heildarsamkomulagsins hefur verið gengið frá þeirri aðlögun á lagaramma um málaflokkinn, sem nauðsynleg er til þess að yfirfærslan geti átt sér stað. Ráðuneyti hafa fyrir sitt leyti gengið frá frumvörpum til þessara breytinga og hafa þau verið kynnt í ríkisstjórn, fyrir stjórn Sambands íslenskra sveitarfélaga og fyrir hagsmunasamtökum.

Þessi frumvörp, auk fjárlaga fyrir árið 2011, munu festa í lög þann fjárhagsramma verkefnisins sem undirritaður var 6. júlí sl. Samkvæmt því munu sveitarfélögin fá 1,20% hækkun á útsvarshlutfalli gegn samsvarandi lækkun á tekjuskattshlutfalli ríkisins. Auk þess er frágengið að veitt verða framlög vegna veikrar stöðu útsvarsstofnsins, notendastýrðrar persónulegrar aðstoðar, biðlista eftir þjónustu og breytingakostnaðar.

Markmið tilfærslu þjónustu við fatlaða eru að: bæta þjónustu og auka möguleika til að laga hana að þörfum notenda með hliðsjón af ólíkum aðstæðum, stuðla að samþættingu nærþjónustu við íbúa sveitarfélaga, tryggja að eitt stjórnsýslustig beri ábyrgð á stærstum hluta almennrar félagsþjónustu, bæta samhæfingu og draga úr skörun ábyrgðarsviða stjórnsýslustiga, tryggja góða nýtingu fjármuna, styrkja sveitarstjórnarstigið, einfalda verkaskiptingu ríkis og sveitarfélaga.

Nánari upplýsingar er að finna á upplýsingavef Sambandsins um yfirfærsluna.

thelma@bb.is