Formenn BSRB og ASÍ undirrita samstarfsyfirlýsingu um forystufræðslu14.9.2012

Elín Björg Jónsdóttir, formaður BSRB, og Gylfi Arnbjörnsson, forseti ASÍ, undirrituðu í dag samstarfsyfirlýsingu um forystufræðslu samtakanna. Um er að ræða samhæft fræðsluátak þar sem búin hefur verið til heildstæð námsleið sem ber heitið „Forystufræðsla fyrir  stjórnir og starfsfólk stéttarfélaga".

Aðildarfélög BSRB og ASÍ gegna margþættu hlutverki við að bæta hag og verja hagsmuni félagsmanna sinna. Þjónusta stéttarfélaganna er í örri þróun og með þessari nýju námsleið er verið að auka þekkingu og fagmennsku þeirra sem starfa fyrir stéttarfélögin. Forystufræðslunni er ætlað að mæta auknum  kröfum  sem gerðar eru til forystu og starfsfólks innan samtaka BSRB og ASÍ.

Síðastliðið ár hefur staðið yfir undirbúningur námsleiðarinnar og hafa margir komið að þeirri vinnu. Félagsmálaskóli alþýðu og Fræðslusetrið Starfsmennt hafa umsjón með öllum námskeiðunum en þau verða í boði um allt land.  

Helstu markmið námslínunnar eru:

  • Að efla þekkingu og fagmennsku starfsmanna og stjórna aðildarfélaga innan BSRB og ASÍ á starfshlutverkum sínum.
  • Að virkja lýðræðislega þátttöku í öllu starfi aðildarfélaga BSRB og ASÍ.
  • Að styrkja liðsheild og samstöðu og efla upplýsingamiðlun meðal stjórna og starfsfólks.
  • Að styrkja hæfni stjórnenda til að leiða fjölbreytt verkefni aðildarfélaga BSRB og ASÍ.
  • Að efla skilning á breyttum þörfum félagsmanna og nýjum áherslum í þjónustu stéttarfélaga.

Nánari upplýsingar má fá á heimasíðu Félagsmálaskólans http://www.felagsmalaskoli.is/ og Fræðslusetursins Starfsmenntar http://www.smennt.is/