Formaður BSRB um launahækkun forstjóra LSH

„Maður veltir því fyrir sér hvers vegna við erum með kjararáð þegar ráðherra getur einhliða tekið ákvarðanir um svo ríflega hækkun launa eins manns," segir Elín Björg Jónsdóttir, formaður BSRB um þá ákvörðun Guðbjartar Hannessonar velferðarráðherra að hækka mánaðarlaun forstjóra Landspítalans um 450 þúsund krónur.

Sagt hefur verið frá því í fréttum í dag að velferðarráðherra hafi hækkað laun hans án aðkomu kjararáðs og eru laun forstjóra Landspítalans nú um 2,3 milljón á mánuði.

„Og á meðan hafa stjórnvöld ekki einu sinni haft fyrir því að svara fyrirspurnum BSRB um leiðréttingu á starfshlutfalli og launum almenns launafólks sem margt hefur búið við skert starfshlutfall og hlutfallslega lægri laun frá því að kreppan skall á fyrir fjórum árum síðan," segir Elín Björg og vitnar í bréf sem hún sendi fjármálaráðherra í upphafi árs og hefur síðan verið ítrekað. Ekki hafa enn borist svör við fyrirspurn hennar frá fjármálaráðuneytinu.

„Nú er það svo að tímabundnar launalækkanir dómara, alþingismanna, ráðherra og margra af forstjórum opinberu stofnananna og opinberu fyrirtækjanna hafa verið látnar ganga til baka af kjararáði. Og þarna gengur velferðarráðherra meira að segja framhjá kjararáði og hækkar laun eins manns um nærri hálfa milljón. Ég á erfitt með að botna í þessum vinnubrögðum og taka því sem í raun er verið að segja við almennt launafólk sem starfar á heilbrigðisstofnunum landssins," segir Elín Björg.

Fréttastofa Rúv fjallaði um málið í kvöld og ræddi þar m.a. við Elínu Björgu. Heyra má viðtalið hér.