Formaður BSRB: Aukin kostnaður sjúklinga eykur ójöfnuð

 

Þar má sjá skiptingu útgjalda hins opinbera og heimilanna innan heilbrigðiskerfisins. Hlutur heimilanna nam í fyrra 20,6% af heildarkostnaðnum. Það er 1% meira en hafði mest gerst áður á tímabilinu frá 1998.

„BSRB hefur lýst áhyggjum sínum af þessari þróun og á þingi okkar í október samþykktum við ályktun þar sem þessu er sérstaklega mótmælt. Á sama þingi var stefna BSRB til umfjöllunar þar sem m.a. er fjallað um aukna kostnaðarþátttöku sjúklinga og bent á að hún geti leitt af sér meiri ójöfnuð. BSRB vill að leitast verði við að sem minnst gjaldtaka verði innan heilbrigðiskerfisins í framtíðinni. Heilbrigðiskerfi Íslendinga á að veita hverjum sem þarf á aðstoð að halda alla þá þjónustu sem völ er á án mikils tilkostnaðar fyrir viðkomandi," segir Elín Björg.

Í ritinu um fjármál hins opinbera kemur einnig fram að útgjöld hins opinbera til heilbrigðismála, sem hlutfall af landsframleiðslu, hafa ekki verið lægri í hálfan annan áratug. Í fyrra námu þau 6,76% af landsframleiðslunni en árin á undan var sú tala á bilinu 7,27% til 7,91%.

„Ég held að öllum sé það ljóst að við verðum að auka hlut heilbrigðiskerfisins í útgjöldum hins opinbera á ný svo að við getum veitt framúrskarandi þjónustu þar sem allir standa jafnir og greiðslugeta hvers og eins hefur ekki teljandi áhrif. Samhliða þessu verður líka að endurskoða aukna þátttöku almennings í greiðslu fyrir nauðsynleg lyf. Það liggur í hlutarins eðli að lyfjakostnaður og önnur útgjöld fólks vegna heilsubrests lenda harðast á þeim sem eiga við mikil veikinda að stríða. Veikinda valda tekjumissi ofan á aðra erfiðleika og því ætti það að vera grunnréttur þeirra sem veikir eru að fá lyf og læknishjálp við hæfi án mikils kostnaðar fyrir viðkomandi," bætir Elín Björg við.