Fjárhagsaðstoð sveitarfélaga og tengsl við atvinnuleysisbætur

Fjárhagsaðstoð sveitarfélaga og tengsl við atvinnuleysisbætur.

 

Á fjármálaráðstefnu sveitarfélaganna fjallaði Gyða Hjartardóttir, félagsþjónustufulltrúi sambandsins um áhrif langtímaatvinnuleysis fyrir sveitarfélögin. Í erindi hennar koma m.a. fram að:

  • Afleiðingar langtímaatvinnuleysis geta verið verulegar á einstaklinga sem og sveitarfélög landsins og eru áhrif langtímaatvinnuleysis nú þegar vel merkjanleg hjá félagsþjónustum landsins.
  • Heildarfjöldi einstaklinga sem fengu fjárhagsaðstoð sveitarfélaganna hefur fjölgað á milli áranna 2007 til 2011 um rúm 80%.
  • Í júní 2012 fengu rúmlega 1400 einstaklingar fjárhagsaðstoð hjá sveitarfélögunum eingöngu vegna atvinnuleysis.
  • Samanburður á þróun fjárhagsaðstoðar og þróun atvinnuleysis sýnir að frá 2009-2011 fækkaði skráðum atvinnulausum um 10% á meðan einstaklingum sem fá fjárhagsaðstoð sveitarfélaga fjölgaði á sama tíma um 28%.
  • Skv. tölum Vinnumálastofnunar (VMST) var atvinnuleysi 4,79% í júní 2012 en hækkar um 34% og fer í 6,42% ef fjöldi þeirra sem fá fjárhagsaðstoð vegna atvinnuleysis hjá sveitarfélögunum og þeim sem eru í vinnumarkaðsúrræðum á vegum VMST er bætt við. Þá er ekki búið að taka tillit til þeirra sem ekki uppfylla skilyrði til að fá fjárhagsaðstoð hjá sveitarfélagi t.d. vegna tekna maka og þeirra sem hafa flutt erlendis í atvinnuleit, en engin skrá er til um þá hópa.
  • Gera má ráð fyrir að kostnaður sveitarfélaganna árið 2013 vegna fjárhagsaðstoðar til þeirra sem eru atvinnulausir verði um 5,5 milljarðar ef bráðabirgðaákvæðið um framlengingu atvinnuleysisbóta um eitt ár verður ekki framlengt. Er þá miðað við að um 60% þeirra sem missa bótarétt hjá VMST fái fjárhagsaðstoð frá sveitarfélögunum.
  • Fjárhæðin er orðin það há að hún fellur undir almenn fjárhagsleg samskipti ríkis og sveitarfélaga.
  • Breytt og aukið hlutverk félagsþjónustu sveitarfélaganna kallar á á endurskoðun laga. Með því eru sveitarfélögin ekki að víkja sér undan samfélagslegri ábyrgð heldur takast á við breytta tíma.
  • Samfélagslegt hlutverk sveitarfélaganna er að efla hæfni fólks til að leysa vanda, aðstoða fólk við að sjá nýjar leiðir og möguleika til að komast úr sínum erfiðleikum. Sérfræðingar hjá sveitarfélögunum, í samvinnu við einstaklinginn, meta stöðu hvers og eins og þeir sem ekki eru metnir vinnu- eða virknifærir fá áfram þá félagslegu aðstoð sem þeir þurfa.

Skýrsla um fjárhagsaðstoð sveitarfélaga og tengsl við atvinnuleysisbætur.

Glærur Gyðu frá ráðstefnunni.

Tölulegar upplýsingar í erindi Gyðu byggja á könnun sem hag- og upplýsingasvið sambandsins framkvæmdi sumarið 2012 um fjárhagsaðstoð sveitarfélaga og tengsl við atvinnuleysisbætur.