Endurskoðun kjarasamninga: Samningseiningafundur BSRB á morgun

Endurskoðunarákvæði kjarasamninga aðildarfélaga BSRB eru tengd endurskoðunarákvæðum kjarasamninga á almennum vinnumarkaði. Þar sem það liggur fyrir að gerðar hafa verið breytingar á samningstímanum á almennum vinnumarkaði þýðir það jafnframt að við förum í viðræður við félögin okkar um hvernig við munum bregðast við þessu," segir Elín Björg Jónsdóttir, formaður BSRB um næstu skref varðandi breytta kjarasamninga fyrir aðildarfélög bandalagsins.Boðað hefur verið til samningseiningarfundar vegna málsins hjá BSRB á morgun og þar mun það ráðast hvert framhaldið verður.

Aðspurð segir Elín Björg að líklegast sé að samningar aðildarfélaga BSRB verði styttir til samræmis við það sem gert var á almennum markaði fyrr í vikunni. Það fari þó eftir niðurstöðu samningseiningarfundarins á morgun og hvert viðmót viðsemjenda verður.

„Við viljum svo nýta tímann sem framundan er til að vinna að gerð nýrra samninga svo að það markmið okkar um betri vinnubrögð við gerð kjarasamninga nái fram að ganga. BSRB hefur lagt mikla áherslu á þetta atriði og ríkisstjórnin hefur gefið út viljayfirlýsingu þess efnis. Ríkissáttasemjari hefur farið fyrir þeirri vinnu og við leggjum áherslu á að allir komi að bættum vinnubrögðum við gerð kjarasamninga," segir Elín Björg og bætir við:

„Annað sem BSRB hefur lagt áherslu á er að kjarasamningur taki alltaf við af kjarasamningi þannig að þeir séu ekki lausir til lengri tíma. Við verðum einnig að nýta tímann til að ljúka þeim verkefnum sem enn er ólokið á þessum mánuðum sem eftir eru af samningstímanum svo að tiltrú fólks á framkvæmdaáætlun með kjarasamningum hafi eitthvert raunverulegt gildi. Þar vísa ég meðal annars til vinnu við að uppræta launamun kynjanna, styttingu vinnuvikunnar, endurskoðun á málefnum vaktavinnufólks og frekari skref í að koma hér á varanlegum húsaleigumarkaði," segir Elín Björg.

Eins og áður hefur komið fram hefur verið boðað til samningseiningarfundar hjá aðildarfélögum BSRB á morgun og þá mun ráðast hver næstu skref verða í málinu.