Áramótapistill formanns BSRB

Viðburðaríkt ár í sögu BSRB er nú að baki. Bandalagið fagnaði 70 ára afmæli í febrúar og 43. þing BSRB fór fram í október mánuði þar sem stefna til næstu þriggja ára var mótuð. Það er mín skoðun að þingið hafi farið vel fram og  þar hafi mikilvæg og góð málefna vinna farið fram. Þakka ég öllum sem komu að störfum bandalagsins á liðnu ári fyrir þeirra framlag. Eins þakka ég þingfulltrúum kærlega fyrir það traust sem mér var sýnt með kjöri til áframhaldandi formennsku í BSRB til næstu þriggja ára.

Yfirskrift 43. þings BSRB var „Framtíð byggð á jöfnuði og velferð". Slagorð sem byggir á gömlum gildum enda byggir BSRB á gömlu grunni sem lagður var árið 1942. Á síðustu árum hefur stjórn BSRB ásamt starfsmönnum unnið ötullega að því að hrinda í framkvæmd áherslum bandalagsins og oft hefur verið við ramman reip að draga enda ástand efnahagslífsins með slíku móti.

Áhersla hefur skiljanlega verið lögð á að verja almannaþjónustuna og þótt við hefðum viljað sjá enn öflugra velferðarkerfi á Íslandi þessi síðustu ár hefur um margt tekist vel til miðað við aðstæður. Verkefni framtíðarinnar eru ærin. Við þurfum að vinna enn frekar að mennta-, heilbrigðis- og velferðarmálunum og sjá til þess að Ísland verði sannarlega samfélag jafnaðar.

Það er félagslega samheldnin sem skilar okkur framförum og auknum lífsgæðum. Með samheldni og samstöðu verðum við að byggja til framtíðar. Og ef við höfum þessi grunngildi um jöfnuð fólks hugföst við uppbyggingu landsins mun birta til hjá þjóðinni.

Ég hlakka til að takast á við verkefni nýs árs ásamt félögum mínum í BSRB. En þótt margt bendi til þess að bjartari tímar séu framundan megum við hvergi sofna á verðinum. Við þurfum að halda áfram að halda gildum okkar á lofti og sjá til þess að hér byggist upp réttlát samfélag þar sem jöfnuður allra verður hafður að leiðarljósi. Samheldni okkar og baráttuandi mun alltaf skila okkur meiru en einstaklingshyggja og saman getum við gert gott samfélag enn betra.

Ég óska ykkur öllum gleðilegrar hátíðar og farsældar á nýju ári um leið og ég þakka samstarfið á liðnum árum.

Elín Björg Jónsdóttir, formaður BSRB