Ályktun stjórnar BSRB

Ályktun stjórnar BSRB þann 22. apríl 2013

Á undanförnum árum hefur BSRB ítrekað bent á þann mikla kynbundna launamun sem viðgengist hefur á meðal opinberra starfsmanna. Framkvæmdar hafa verið viðmiklar kannanir á þessu sviði sem nú síðast sýndu fram á kynbundinn launamun upp á 13,1% að meðaltali á landsvísu. BSRB hefur jafnframt þrýst mjög á stjórnvöld að bregðast við vandanum svo hann megi uppræta enda á launamisrétti á grundvelli kynferðis ekki að viðgangast.

Með fyrstu skrefunum sem stjórnvöld tóku nýverið í átt að því að útrýma launamuninum með svonefndu jafnlaunaátaki þokast málið í rétta átt. Átakinu er ætlað að ná til starfsstétta þar sem konur skipa meira en tvo þriðju hluta starfsstéttar og í fyrstu á að bregðast við og leiðrétta kjör kvennahópa innan heilbrigðiskerfisins.

Stjórn BSRB  gerir kröfu um að framkvæmd jafnlaunaátaksins  byggi á jafnræði milli starfsstétta. Átakið verður að ná jafnt til starfsstétta BSRB og háskólamenntaðra  stétta sem undir jafnlaunaátakið falla.