Ályktun frá St.Rv um þróun launastefnu stjórnenda hins opinbera

Stjórn og Fulltrúaráð Starfsmannafélags Reykjavíkurborgar (St.Rv.) ályktaði á fundi sínum þann 18. september 2012 og var fjallað um launaþróun stjórnenda hjá hinu opinbera. Ályktunin í heild sinni var svo hljóðandi:

Stjórn og fulltrúráð Starfsmannafélags Reykjavíkurborgar lýsir yfir áhyggjum vegna þróunar á launastefnu stjórnenda hjá hinu opinbera. Á sama tíma og ný launakönnun hefur sýnt fram á að opinberir starfsmenn þurfa að meðaltali að hækka um  22% til þess að vera  með sambærileg laun og starfsmenn á almenna vinnumarkaðinum, og að enn er til staðar 10 til 12% launamunur á milli kynja þá hafa æðstu ráðamenn hjá hinu opinbera leyft sér að hækka laun æðstu stjórnenda og forstjóra sinna stofnana langt umfram almennar leiðréttingar launa. Þetta er að  gerast á sama tíma og aðrir sem hafa unnið fyllilega jafn vel, verið undir álagi sem er engu minna og hafa borið á eigin skinni mestan þunga aðhaldsaðgerða umliðinna ára eru látnir liggja óbættir hjá garði. Þetta sýnir velferðarráðherra okkur svo gróflega með vinnubrögðum sínum  í kringum siðlausa launahækkun  upp á 5,4 milljónir á ársgrundvelli til  forstjóra Landspítala og ráðamenn Reykjavíkurborgar hafa sýnt áþekka tilburði, þó tölur hafi verið lægri, með launahækkunum til sinna æðstu embættismanna.

Stjórn og fulltrúráð St.Rv. átelur þessi vinnubrögð og krefst þess að stjórnendur eigi samfylgd með starfsmönnum stofnana sinna.  Stjórn og fulltrúaráð St.Rv. krefst  þess ennfremur að að stjórnendur hjá ríki og borg leiðrétti án tafar laun starfsmanna sem hafa orðið fyrir skerðingu í kjölfar hrunsins. Jafnframt að þeir setji saman trúverðuga áætlun í samráði við félagið, þar sem tekið verði bæði á launamuni milli opinberra starfsmanna og þeirra sem starfa á  almenna vinnumarkaði og þeim kynbundna launamun sem enn viðgengst hjá hinu opinbera.