Alþjóðadagur eldri borgara

Árið 2012 er tileinkað öldruðum í Evrópu. Megináherslan er á að auka virkni og færni aldraðra, bæta menntun og brúa kynslóðabilið. Stjórnvöld í Evrópu hafa beitt sér fyrir margvíslegum aðgerðum í tilefni af Evrópuári aldraðra.

Landssamband eldri borgara hefur leitað til mennta- og menningarmálaráðuneytisins og óskað eftir því að athygli grunnskóla verði vakin á Evrópuárinu og sérstaklega alþjóðadegi eldri borgara í skólum 1. október nk.

Ráðuneytið lýsir ánægju sinni með þetta frumkvæði Landssambands eldri borgara og vekur athygli grunnskóla á alþjóðadegi eldri borgara þann 1. október nk. Hugmyndir Landssambandsins eru einkum þær að í tengslum við þann dag bjóði skólar eldri borgara velkomna í grunnskóla með það að markmiði að brúa kynslóðabilið sem er eitt af markmiðum Evrópuársins. Landssambandið hefur hvatt öll aðildarfélög á landinu til að þau beiti sér fyrir tengslum við grunnskóla á félagasvæðinu og væntir góðs samstarfs við grunnskóla um útfærsluna og að þetta geti leitt til frekari samvinnu milli grunnskóla og eldri borgara á komandi árum.

Grunnskólar eru hvattir til að bjóða eldri borgara velkomna í heimsókn í tengslum við alþjóðadaginn 1. október nk. þar sem börn og eldri borgarar fái tækifæri til að hlusta hvert á annað og vinna að verkefnum eftir því sem hentar. Vakin er athygli á heimasíðu samtakanna www.leb.is og netfangi leb@leb.is.