Aðalfundur F.O.S.Vest og stytting vinnuvikunnar

Kæri félagi

Nú líður senn að aðalfundi F.O.S.Vest, sem haldinn er óvenju seint og undir óvenjulegum kringumstæðum. Í þetta sinn verður fundurinn fjarfundur sendur út frá skrifstofu félagsins miðvikudaginn 11. nóvember kl. 18:00.

Ég vil hvetja þig þrátt fyrir þessar óvenjulegu aðstæður til að taka þátt og nýta málfrelsis-, tillögu og atkvæðisrétt þinn.  Til að taka þátt þarft þú að skrá þig á heimasíðu félagsins fyrir 10. nóvember. Daginn fyrir aðalfundinn færð þú sent í tölvupósti upplýsingar um hvernig þú tengist inn á fundinn. Notast verður við Zoom fjarfundakerfið sem margir kannast orðið vel við. Til að allt gangi sem best fyrir sig höfum við fengið okkur til aðstoðar Viðburðaþjónustu Vestfjarða.

Hér er vefslóð til að skrá þátttöku á aðalfundinn:
https://fosvest.is/getum_vid_adstodad/hafa_samband/

Mig langar einnig til að nota þetta tækifæri og ræða styttingu vinnuvikunnar og  segja þér frá þeirri miklu vinnu sem farið hefur fram á vettvangi BSRB við að útbúa fræðsluefni fyrir styttinguna. Hér er vefur BSRB fyrir styttingu: https://www.styttri.is/

Ég vil hvetja þig til kynna þér sem best ferlið, sem gert er ráð fyrir að fylgja við framkvæmd styttingarinnar. Þetta á að vera samráðsferli á hverjum vinnustað, sem endar með því að kosið er um tillögur til styttingar. Það er ekki gert ráð fyrir að vinnuveitandinn setji fram einhliða tillögu til styttingar sem starfsmenn eiga að kjósa um. 

Ég veit að það getur verið erfitt að ræða styttingu vinnuvikunnar við vinnuveitendur í núverandi árferði. Margskonar misskilningur um styttinguna virðist einnig vera í gangi. Ég vil hvetja þig,  ef þú ert að vinna að þessum málum á þínum vinnustað, að kynna þér vel fræðsluefnið og ef þú þarft aðstoð þá er þér velkomið að leita til félagsins. 

Núna er einstakt tækifæri að bæta lífskjör okkar með styttingu vinnuvikunnar og við þurfum að ná góðri niðurstöðu.

Áfram stytting vinnuvikunnar og sjáumst á aðalfundinum!