2200 ný störf fyrir langtímaatvinnuleitendur

Samkomulag var í dag undirritað um 2200 ný störf fyrir langtímaatvinnuleitendur. Markmið verkefnisins er að virkja þá atvinnuleitendur sem hafa fullnýtt rétt sinn innan atvinnuleysistryggingakerfisins til þátttöku að nýju á vinnumarkaði. Elín Björg Jónsdóttir, formaður BSRB, undirritaði samkomulagið fyrir hönd bandalagsins.

Samstarfsyfirlýsingin er milli velferðarráðuneytisins, fjármála- og efnahagsráðuneytisins, BSRB, BHM, ASÍ, Sambands íslenskra sveitarfélaga og SA, Vinnumálastofnunar og VIRK starfsendurhæfingarsjóðs. Alls eru 3700 manns í hópi þeirra sem fullnýtt hafa rétt sinn til atvinnuleysisbóta. Markmiðið er að þeim verði öllum boðin vinna eða starfsendurhæfing á nýju ári en áætlað er að um 60% taki tilboði um vinnu og því þurfi um 2200 störf að vera í boði. Sveitarfélög muni bjóða upp á að minnsta kosti 660 starfstengd vinnumarkaðsúrræði, ríki  og almenni vinnumarkaðurinn um 1500 starfstengd vinnumarkaðsúrræði.

Samstarfsyfirlýsingin er milli velferðarráðuneytisins, fjármála- og efnahagsráðuneytisins, Alþýðusambands Íslands, Bandalags háskólamanna, Bandalags starfsmanna ríkis og bæja, Sambands íslenskra sveitarfélaga og Samtaka atvinnulífsins, Vinnumálastofnunar, VIRK starfsendurhæfingarsjóðs  og Starfs vinnumiðlunar og ráðgjafar.